21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (3199)

78. mál, útibú frá Landsbanka Íslands í Árnessýslu

Flm. (Einar Arnórsson):

Það er óþarft að halda langa framsöguræðu í þessu máli. Það, sem fram á er farið í frv., er að eins það að veita bankanum heimild til að stofna útibú fyrir austan fjall. Menn eru beðnir að gæta þess vel, að hjer er ekki um skyldu að ræða, heldur að eins heimild, og að bankanum er ekki að neinu leyti íþyngt, þó að frv. þetta verði að lögum. Þá er ekki heldur erfitt að átta sig á því, að það, sem sagt er um markað þessa útibús í ástæðum frumvarpsins, er ekki út í loftið. Í þeim 3 sýslum, sem því nær eingöngu mundu skifta við útibúið, er viðskiftaþörfin þegar orðin mikil. Einnig er það tekið fram í ástæðunum, hvernig aðstaða þessara sýslna er til framleiðslunnar í landinu. Á þessu svæði er rúml. ? allra jarðarhundraða, og þar búa liðlega 15½% af öllum landsmönnum,

Af búnaðarskýrslunum má sjá, hvernig framleiðslan er í þessum hjeruðum. Bústofninn er þar, miðaður við bústofn alls landsins:

Sauðfje . . . 20½%

Nautgripir . . 29%

Hross .... 26?%

Ræktað land … 20%

Þar er rúmlega ? allra sáðgarða í landinu og heyafli 30½%eða nærfelt þriðjungur af öllum heyafla landsins. — Þá er mönnum engu síður kunnugt um, að frá þessum stöðvum eru stundaðar fiskveiðar, og mundu verða auknar að mun, ef hafnleysið bagaði ekki, en líklega verður ráðin bót á því áður en mjög langt líður. Loks munu flestir sammála um það, að hvergi á landinu sjeu jafngóð skilyrði til að auka framleiðsluna og á Suðurlandsundirlendinu. Mikill hluti Árnessýslu má heita ónumið land, og stórfeldur umbætur standa þar fyrir dyrum. Nokkuð svipað má segja um Rangárvallasýslu. Væri hægt að girða fyrir skemdir af sandfoki og hefta vatnsföll, sem árlega brjóta meira, og minna af landi, mætti auka framleiðsluna þar að mjög miklum mun.

Að öllu þessu samanlögðu vænti jeg, að mönnum sje ljóst, að hjer er ekki um neina þarfleysu að ræða, heldur rjettmæta og sanngjarna kröfu. Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta mál, en leyfi mjer að leggja til, að því verði vísað til allsherjarnefndar, að þessari umr. lokinni.