22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í C-deild Alþingistíðinda. (3212)

78. mál, útibú frá Landsbanka Íslands í Árnessýslu

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg hefi í raun og veru ekki annað um frv. þetta að segja en tekið er fram í nál., sem jeg vona að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer, og skal því vísa til þess.

Frv. þetta fer fram á að heimila Landsbanka Íslands stofnun útibús í Árnessýslu, svo fljótt sem unt er. Í ástæðunum fyrir frv. er talið, að heimild skorti að lögum til þess að stofna útibú það, sem frv. fer fram á að sett verði á fót. En úr þessu sje bætt með frv. En nefndin getur ekki kannast við, að þessa heimild skorti í lögin frá 18. september 1885. Þar er sem sje ákveðið, að bankinn skuli setja aukabanka á stofn svo fljótt sem unt er og þörf krefur, einkum á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Og í þessu ákvæði felst þá einnig heimild til að setja á stofn útibú á fleirum stöðum en sjerstaklega eru tilnefndir í lögunum. Nefndin hefir ekkert á móti ástæðunum, sem tilgreindar eru fyrir nauðsyn á útibúi á þessum stað. En henni fanst óþarft, að löggjafarvaldið blandaði sjer í málið, og hefir þess vegna lagt til, að því verði vísað til stjórnarinnar.