06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki vera langorður, en jeg verð að segja, að mig furðar á því, hvað hv. 1. þm. Árn. (S. S.) getur verið nægjusamur fyrir hönd leiguliðanna. Breytingar þær, sem frv. felur í sjer, fara svo skamt leiguliðunum í hag, en geta hins vegar orðið Þrándur í Götu fyrir því, að gagngerðar breytingar verði gerðar innan skamms tíma. Hann segir, að þetta sje til að tryggja betur rjett ábúenda yfir jörðum þeirra, en um ábúð á opinberum eignum er það að segja, að það mun vera hjer um bil föst regla, að hún sje gefin æfilangt, en hjer fer hann að eins fram á til 10 ára. Það liggur því á augum uppi, að ef þetta yrði að fastri venju, þá er það ekki til bóta búendum á opinberum eignum, af því sem áður er sagt. Öðru máli er að gegna þar, sem um einstakra manna jarðir er að ræða, því að þar er oft ábúðarrjettur að eins gefinn til árs og árs í senn; en hjer finst mjer vera komið inn á vandasamt atriði, þar sem er umráðarjettur einstaklingsins yfir eign sinni. Mjer finst líka þetta endurgjald, sem ætlað er ábúendum fyrir unnar jarðabætur, er þeir fara frá jörðu, engu sanngjarnlegra fyrir hlutaðeigendur en það er eftir ákvæðum gildandi laga, nema síður sje, og þetta er því eftirtektarverðara, sem frv. á einmitt að stefna að endurbót eldri laga.