06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í C-deild Alþingistíðinda. (3226)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg ætla mjer ekki að svara mörgu af því, sem fram hefir komið gegn frv. þessu, meðal annars af því, að háttv. andstæðingar mínir virðast ósammála um agnúana, sem þeir telja vera á frv. Háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) taldi, ofskamt farið í 1. gr. um ábúðartímann (B. St.: Á þjóðjörðum), en hinir 2, háttv. þm. Barð. (H. K.) og 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kváðu það ákvæði lítt viðunanlegt og með því gengið um of nálægt eignar- og umráðarjetti manna. Jeg skal strax taka það fram til skýringar, að ákvæði frv. gilda alment og yfir höfuð, en eru þó aðallega miðuð við ábúð á jörðum einstakra manna. Háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) hefir því hlaupið illa á sig, er hann hjelt, að með því væri átt aðallega við opinberar eignir. Það er að eins í 3. gr., að tekið er fram, að ákvæðið gildi líka landseta á opinberum jarðeignum. Það eru til sjerstakar reglur um byggingu opinberra jarða, enda eru þær vanalega bygðar til lífstíðar. Þess vegna koma athugasemdir háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) frv. ekki við. Jeg skal nú að nokkru leyti kannast við, að ef til vill er oflangt gengið í 1. gr. frv. En minna má á það, að eitt það allra skaðlegasta í okkar búskap er það, þegar jarðir eru bygðar að eins til eins og eins árs í senn. Með þessu ákvæði vildi jeg tryggja, að ábúðarrjetturinn yrði ekki jafnóviss og á reiki og verið hefir. Að öðru leyti getur landbúnaðarnefndin, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, athugað þetta nánar, og óhætt er að treysta henni til að ganga ekki oflangt.

Jeg vil vekja athygli hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) á því, að jarðeigendur setja oft upp við landseta, að þeir geri jarðabætur. Það er auðvitað samningsatriði og jarðabætur, sem landeigandi borgar ekki sjerstaklega. Fyrir aðrar jarðabætur á að borga, og ef til vill er gengið ofskamt í þá átt í frv., og mjer þætti vænt um, ef einhver treysti sjer til að fara lengra.

Að öðru leyti skal jeg geta þess, út af ræðu háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að jeg tók hjer aðallega og eingöngu þær greinar ábúðarlaganna, sem menn yfirleitt eru óánægðastir yfir. Það getur vel verið, að rjettast væri að endurskoða öll ábúðarlögin, en það ætti stjórnin þá að gera. Fyrir nokkrum árum var samskonar frv. vísað til stjórnarinnar, en hún lýsti yfir því, að hún treysti sjer ekki til að endurskoða lögin. Nú er ef til vill öðru máli að gegna, þar sem nú sitja 3 menn í stjórninni, og einn þeirra ætti sjerstaklega að hafa vit á þessu máli, þar sem hann er gamall bóndi.