13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í C-deild Alþingistíðinda. (3229)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta mál er ekki nýtt hjer á þinginu. Það hefir legið fyrir þingum að undanförnu, var borið fram af landbúnaðarnefnd á þinginu 1909, svo aftur 1911 og í þriðja sinn 1913, en aldrei komist í gegnum þingið. Frv. hefir aldrei verið felt, heldur hafa menn gert það af ásettu ráði að láta það ekki verða að lögum, af því að það hefir ekki þótt nægilega undirbúið. Yfirleitt hefir það ekki þótt tiltækilegt, að lög um bygging og ábúð jarða verði þannig að lögum, heldur þurfi þau að vera betur undirbúin. Nefndin nú hefir komist að sömu niðurstöðu. Nú eru, eins og menn vita, mörg mál á döfinni, sem ástæða þykir til að búin sjeu sem best undir þing. Þetta er eitt af þeim, sem sjerstaklega þarf að vanda til, ef svo á að vera frá því gengið, að vel sje. Líklega þyrfti helst milliþinganefnd, ef það ætti að vera nógu rækilega athugað. Nefndin fer nú ekki þá leiðina að leggja til, að milliþinganefnd verði skipuð, heldur vill hún vísa málinu til stjórnarinnar, með þeirri skírskotun, sem rökstudda dagskráin á þgskj. 891 ber með sjer.

Þó að háttv flm. (S. S.) hafi komið með brtt. á þgskj. 921, þá býst jeg ekki við, að það sje ætlun hans, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu við þessa umræðu. Hann hefir að öllu leyti fallist á meðferð nefndarinnar á málinu. Jeg held því, að hann beri brtt. fram að eins til að skýra málið betur. Nefndarálitið er skrifað til þess að vekja athygli á málinu á ný og koma mönnum til að hugsa það og ræða um land alt. Málið hefir altaf verið tekið upp á þingi til þess, að umræður yrðu um það, og í von um, að gangskör yrði gerð að því að koma því í betra horf. Þetta hefir ekki orðið enn þá. Það hefir orðið þingsins hlutverk að hreyfa við því, og þó ekki unnist tími til að brjóta það til mergjar, eins og jeg hefi áður sagt.

Jeg skal benda á eitt atriði, sem mikil vandkvæði eru á að ráða fram úr; það er um hús á jörðum. Það mun vera miklu auðveldara að koma sjer niður á viðunanleg ákvæði um það, er snertir jarðabætur. Vandinn er meiri með þau ákvæði, sem snerta húsin, hverjar skyldur landsdrottinn skuli hafa gagnvart leiguliða í þeim efnum, hvort landsdrottinn eigi að leggja til fullnægjandi hús á jörðina, og hvort leiguliði skuli eiga heimtingu á fullu endurgjaldi fyrir þau hús, sem hann lætur byggja. Þá verður að minsta kosti að slá varnagla við því, að ekki sje hrófað upp húsum, sem lítt er til vandað og að eins geta staðið í nokkur ár, en síðan verði að bæta þau fullu verði, ef ábúandi fer frá jörðinni, Það ríður á að ganga svo frá lögunum, að menn geti ekki heimt að endurgjald fyrir önnur hús en þau, sem vel er til vandað.

Í frv. er landsdrotni gert að skyldu að láta jörðinni fylgja öll bæjarhús. Önnur hús eru ekki nefnd á nafn. Má því neyða menn til að rífa þau niður og færa á burt, ef landsdrottinn eða viðtakandi vill ekki kaupa. Þessu verður að breyta. — Jeg vil vekja athygli manna á því, sem bent er á í nál., að annað ákvæði var í frv. 1909 og 1911. Þá var svo fyrir mælt, að ef leiguliði vildi breyta jarðarhúsi, umbæta það að mun eða byggja ný hús, sem þörf væri á, þá legði landsdrottinn fram ¾ kostnaðar. Gömlu húsin skyldi þá meta til niðurrifs, og verð þeirra ganga upp í verð þeirra, sem bygð eru. Með þessu móti er hægt að haga umbótum húsakynnanna eftir því, sem þarfir tímans heimta, og eftir því, sem menn álíta að rjett sje í hvert sinn.

Þá er í frv. ákveðið, að landsdrottinn skuli skyldur að leggja fram fje til bæjarhúsa, sem nemur alt að áttföldu afgjaldi. Nefndin vildi engan dóm á það leggja, hvort þetta er á rökum bygt, heldur að eins vekja athygli á því, að í frv. 1909 og 1911 var ekki miðað eingöngu við bæjarhús, heldur við öll hús á jörðinni. Það skiftir miklu, hvernig peningshús eru á jörðum. Það er svo miklu aðgengilegra fyrir leiguliða að taka við jörð, ef hún er vel hýst og hús öll stæðileg. Það er líka mikill kostur fyrir jarðareiganda, að húsin sjeu í því ástandi, að jörðin sje útgengileg til leigu. Nefndin álítur, að komið geti til mála að skylda viðtakanda til að kaupa nauðsynleg úthýsi, en þá yrði að vera sleginn varnagli við því, að þeim væri ekki hrófað upp, heldur yrðu þau að vera vönduð og vel frá þeim gengið.

Eitt atriðið í frv. er um kúgildi, að þau ættu að falla niður. Það er álit manna, að það sje óhagstætt fyrir leiguliða að taka við kúgildum og skila þeim aftur; yfirleitt sje það hagkvæmara, að menn eigi sjálfir það, sem þeir hafa undir höndum. Það mun því vera rjettara að hvetja menn sem mest til þess að standa á eigin merg, fremur en að hafa á leigu.

Ákvæðin í 2. gr. frv. lúta að jarðabótum, en sú er breytingin frá lögum 1884, að hjer er að eins gert ráð fyrir endurgjaldi fyrir stærri jarðabætur. Nefndinni þótti það athugavert, að jarðabæturnar eru ekki greindar nánara, nje skilyrði sett um það, hverjir vera skyldu matsmenn. Nú hefir háttv. flm. (S. S.) flutt brtt., sem bætir úr þessum agnúum, og er samskonar sem sú niðurstaða, er nefndin komst að og raunar felst í athugasemdum hv. flm. (S. S.) við frv., en kemur ekki fram í sjálfu frv.

Þessi 4 atriði, sem jeg hefi nú nefnt, telur þá nefndin athugaverð.

Ábúðarspurningin mun vera ný í þinginu, eða ekki man jeg, að því hafi verið hreyft. Í ábúðarlögunum er ekki nefnt, hvað lágmarkið megi vera um áratölu ábúðar, og það er kunnugt, að menn leigja nú jarðir um 1—2 ár, sem engan veginn getur talist heppilegt. Því vill nefndin, að lágmark sje ákveðið minst 5—10 ár.

Jeg vona, að deildin hafi ekki á móti því, að málinu sje enn um tíma haldið vakandi, og að dagskráin verði því samþykt. Nefndin hefir gert ráð fyrir, að búnaðarfjelag landsins og búnaðarsamböndin leiti aðstoðar hjá góðum mönnum víðs vegar um landið, um breytingar á lögunum, og má því vænta þess árangurs, að málið komi betur undirbúið fyrir næsta þing.