11.09.1917
Efri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í C-deild Alþingistíðinda. (3245)

140. mál, verðlag á vörum

Forseti:

Fleiri mál hafa beðið þess að vera tekin á dagskrá en þetta frv. Nú um hríð hefir verið svo mikið að gera í hv. deild, að hlífst hefir verið við að hafa mörg mál á dagskrá, en þegar annríki þessu er lokið, er sjálfsagt og skylt að taka mál þetta fyrir, og þau önnur mál, er beðið hafa.

Jeg vil og minna menn á, að ýms mál hafa ekki enn komið frá nefndum, svo að hægt hafi verið að taka þau á dagskrá. Eru það mál, sem miklu meiru varða en þetta, er hv. 1. þm. Rang. (E. P.) mintist á. Á jeg við ýms mál, sem bjargráðanefnd hefir haft með höndum, svo sem frv. til laga um dýrtíðarupphót handa embættis- og sýslunarmönnum landssjóðs. (Jóh. Jóh.: Þessi mál voru afhent skrifstofunni í morgun). Það gleður mig mjög.