13.09.1917
Efri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í C-deild Alþingistíðinda. (3247)

140. mál, verðlag á vörum

Magnús Torfason:

Jeg á eina brtt. við 2. gr. frv. Jeg þykist sjá, að ekkert sje nýtt í frv. annað en önnur gr., og verð jeg að furða mig á því, þar eð hjer er um breytingu á tvennum lögum að ræða, að þau skuli ekki hafa verið ger athuguð en hjer virðist hafa átt sjer stað. Og jeg kann sjerstaklega illa við það, að þegar undanskilja á ákvæðum laganna þær innlendar vörur, sem útflutningsbann er á, að leitað skuli tillagna Búnaðarfjelags Íslands, ef landbúnaðarafurðir eru, og Fiskifjelags Íslands, ef sjávarafurðir eru að eins. Jeg get ekki betur sjeð en að hjer sje leitað tillagna þeirra, sem síst er hægt að búast við óhlutdrægni af í meðferð á málunum. Raunar er það fjarri mjer að vilja bera þeim herrum, sem sitja í stjórnum Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelags Íslands, viljandi hlutdrægni á brýn, en það er nú svo, að flestir líta helst á hlutina frá sínum eigin bæjardyrum; þess vegna held jeg, að rjettara sje fyrir landsstjórnina að leita einnig umsagnar verðlagsnefndar, sem gera má ráð fyrir, að verði fult eins óhlutdræg og stjórnir þessara fjelaga. Auk þess má benda á það, að í verðlagsnefndinni eru einnig fulltrúar frá Búnaðarfjelaginu og Fiskifjelaginu, sem búast má við að gæti hagsmuna framleiðendanna sjerstaklega. Jeg býst því við, að brtt. mín sje heldur til bóta, ef hv. deildarmönnum líst annars svo, að frv. eigi að ganga fram. Sjálfur legg jeg enga áherslu á það atriði. Mjer skilst svo sem í frv. vanti tilfinnanlega ákvæði um verðlagsnefndir í hjeruðum. Eftir reglugerðinni má leita til sveitarstjórnanna, en þó hygg jeg, að rjettara hefði verið að festa það fyrirkomulag nokkru betur. Því verður sem sje ekki neitað, að meðferð þessara mála hefir farið misjafnlega úr hendi.