15.09.1917
Efri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í C-deild Alþingistíðinda. (3252)

140. mál, verðlag á vörum

Frsm. (Karl Einarsson):

Þegar mál þetta var til 2. umr. hjer í hv. deild, var það tekið fram, að í frv. fælist ekki önnur breyting frá núgildandi lögum en sú, að landsstjórninni væri heimilt að undanskilja þær innlendar vörur ákvæðum laganna, sem útflutningsbann væri á. En annað nýmæli felst einnig í frv. Samkvæmt því á að skipa einn nefndarmanna eftir tillögum Búnaðarfjelags Íslands og annan eftir tillögum Fiskifjelags Íslands. En við nánari athugun varð nefndin ásátt um það, að hvorttveggja hefði stjórnin heimild til að gera nú, án þess að svo væri skipað fyrir í lögum. Og er menn líta á, hvernig nefndin er skipuð, kemur í ljós, að síðara atriðisins hefir þegar verið gætt. Einn nefndarmanna, Einar Helgason, er starfsmaður Búnaðarfjelags Íslands og nákunnugur öllu því, er að landbúnaði lýtur, og annar þeirra, Árni Eiríksson, er gamall útgerðarmaður og þekkir vel til sjávarútvegsins. Enda skiptir þetta atriði eigi svo miklu, þar sem aðalstarf nefndarinnar er og verður að takmarka óhæfilegt verð á aðfluttum vörum.

En hins vegar er ákvæðið um að undanskilja innlenda vöru, sem útflutningsbann er á, óþarft. Lögin eru að eins heimildarlög, og í reglugerð þeirri, er stjórnin setur um starfssvið nefndarinnar, getur hún kveðið svo á um.

Nefndinni var fullkunnugt um, hve verðlagsnefnd myndi veitast erfitt að fylgjast með vöruverði annarsstaðar á landinu. Vildi hún því gefa stjórninni bendingu um að bæta úr því á þann hátt, að nefndir úti um land væru látnar hafa sjerstakt eftirlit með vöruverði, t. d. hinar svonefndu matvælanefndir, er svo sendu verðlagsnefnd skýrslur sínar. Með því að þetta er ekki tekið fram í frv., hefir nefndin beðið mig um að bera fram, í sínu nafni, svo látandi rökstudda dagskrá, með samþ. hæstv. forseta:

Jafnframt því að skora á landsstjórnina að breyta reglum þeim, sem nú gilda um störf verðlagsnefndar, í þá átt, að hámarksverð verði ekki sett á innlenda vöru, nema brýna nauðsyn beri til, en komið á glöggu eftirliti í hverju hjeraði á gangverði á öllum lífsnauðsynjum og þá einkum aðfluttum vörum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Hjer er þetta tekið fram, sem ekkert ákvæði er um í frv., og sömuleiðis er beinlínis tekið fram, að hámarksverð skuli ekki sett á sjávarafurðir nje landbúnaðar, nema brýna nauðsyn beri til.