21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í C-deild Alþingistíðinda. (3255)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Frsm. (Jón Jónsson):

Eins og háttv. deild sjálfsagt man voru hjer fyrir nokkrum dögum 2 frv. til umr. um forkaupsrjett á jörðum, og kom þá berlega í ljós við þá umr., að æskilegt væri, að ný ákvæði yrðu sett í þessu máli, til viðbótar hinum gömlu. Að öðru leyti hefir nefndin tekið til athugunar þær bendingar, sem þá komu fram í málinu, og breytt í ýmsu frá því sem áður var, svo að jeg hygg, að nú sje betur frá frv. gengið en þá. — Það er álit nefndarinnar, að fullkomin þörf sje á því, að lögleidd verði einhver ákvæði, sem mæli fyrir, hvernig skuli farið með sjálfsábúðarjarðir, sem ganga kaupum og sölum. — Það eru engin lagaákvæði til um slíkar jarðir, sem segja, hver skuli hafa forkaupsrjett, eða sitja fyrir kaupum. Okkur finst nauðsynlegt, að stuðlað sje að því eftir mætti, að jarðir standi í sjálfsábúð eftir sem áður, þótt sala fari fram. Jeg vil geta þess, að leiðinleg villa hefir slæðst inn í handr. frv., þar sem stendur í 13. gr.: „Nú tilkynnir eigandi, eða annar fyrir hans hönd, landsstjórninni, að jörð sje til sölu samkvæmt1. gr“, sem auðvitað á að vera 12. gr. Jeg sje svo ekki frekari ástæðu til að fjölyrða um einstök atriði í málinu við þessa umr. En jeg vona, að hv. deild sannfærist um, að frv. er til mikilla bóta, og ef einhver af hv. þm. sæi eitthvað, sem nefndinni hefði sjest yfir og lagfæra þyrfti, þá vænti jeg þess, að þeir komi fram með það, því að þetta mál er þýðingarmeira en margir gætu haldið, og því áríðandi, að sem best sje um það búið og sem best fyrir því greitt.