21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Frsm. (Jón Jónsson):

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafði margt og mikið við frv. að athuga, þótt hann færi fremur vægt í sakirnar og mætti ekki beinlínis á móti því. Hann reyndi að sýna hjer fram á það, að, eins og tímar væru nú, kærðu menn sig ekki um að eignast jarðir. Þar til er því að svara, að þótt það sje ekki tilfellið nú, þá getur það hæglega orðið í framtíðinni. Við vitum allir, að tímarnir breytast, og alt útlit er fyrir, að jarðir stigi mikið í verði, og af því leiðir svo, að eftirspurnin verður meiri. Jeg skal að vísu játa það, að verið getur, að ekki sje svo vel um hnútana búið í þessu frv. eins og æskilegt væri, en það er líka erfitt að sjá við öllu, sem fyrir kann að koma.

Mjer er ómögulegt að sjá neina hættu í þessu. Aðalreglan mun verða sú að selja einstaklingum. Hjer er verið að tryggja, að engum sje seld jörðin nema þeim, sem ætlar sjer að búa á henni. Gæti vel verið, að svo yrði í flestum tilfellum, þótt ekki væru sett lög um það, en engu spillir að tryggja það með lögum. En þótt þetta gengi ekki, býst jeg við, að sjaldnast yrði það landssjóður, er keypti jörðina. Jeg geri t. d. ráð fyrir, að sveitarstjórnir muni fylgja því með áhuga, er jarðir eru seldar í sveitinni. Það er margt, sem mælir með því, að gott eftirlit sje haft með slíku. T. d. gæti eitt sveitarfjelag haft sjerstaka ástæðu til að sækjast eftir jörð í öðru sveitarfjelagi. Það gæti t. d. keypt hana til að koma þar fyrir fátæklingum, sem eiga að vera í hinum hreppnum, og þannig beitt brellum til að gera þá þar sveitfasta. Svona gæti fleira athugavert komið fyrir í þessu efni.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), fór í einstök atriði, sem ekki er ástæða til að svara. Honum þótti eitthvað athugavert í 8. gr. Nefndin leit svo á, að svo gæti komið fyrir, að seld væru ítök í annari jörð, og henni virðist það mundu eiga best við, að sá fengi keypt, er land ætti undir.

Yfirleitt leit jeg svo á, sem í flestum tilfellum muni enginn vandi að fá kaupanda, þótt í einstökum tilfellum geti það verið erfitt. Það yrðu einstakir menn sem keyptu, og það er það, sem við viljum. Eftir atkvgr. um daginn um frestun sölu þjóðjarða voru það fleiri en hv. þm. Dala. (B. J.), sem halda fram þeirri stefnu, að landið eigi að kaupa allar jarðir. (B. J.; hefi aldrei sagt, að jeg stæði einn uppi). Jeg legg minsta áherslu á síðasta kaflann, en samræmisins vegna hefir nefndin sett þetta ákvæði Hún lítur svo á, að eftirsókn sje svo mikil eftir jörðum, að engin tregða verði á umsóknum um kaup á þeim. Hún þykist þekkja það. Eins og stefnan er nú virðist það liggja í augum uppi, að landssjóður muni sjaldan leita um kaup.

Jeg býst við, að þeir háttv. þm. sem finna eitthvað athugavert, og eru vitrir menn, eins og 2. þm. Árn. (E. A.), komi með brtt. til bóta, en jeg þykist sannfærður um, að frv. verði samþ., því að það er til stórra bóta, og tryggir að mun sjálfsábúð í landinu.