28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Einar Arnórsson:

Það er þegar búið að taka ýmislegt fram til svars því, er sagt hefir verið síðan jeg talaði síðast Þeir fjelagar, háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), eru, þótt undarlegt megi virðast, sammála um, að fullt samræmi sje í þessu frv. og því, sem deildin hefir áður sagt, að landssjóður eigi að selja jarðir þær, sem nú á hann. (P. I.: Það hefir ekki verið sagt.). Jú, með því að fella frv. um frestun á sölu þjóðjarða. Menn segja með öðrum orðum:

Þetta er ágætt. Landssjóður er skyldur til að selja og skylt að selja honum. Þetta heitir á latínu circulus vitiosus, og hafa orðhagir menn nefnt það á íslensku hringavitleysu. (G. Sv.: Þetta er orðhengilsháttur). Það þýðir ekki að karpa um þetta við hinn háttv. þm. (G. Sv ). Með karpinu má kefja alla heilbrigða hugsun.

Hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) kannaðist við, að rjettur seljanda væri lakari ger með brtt. hans við frv. þetta. Það er mjög óeðlilegt, að menn geti lengt frestinn um 18 mánuði, og svo geta menn með vilja dregið þinglýsinguna. Því má svara, að þá sje rjett, að sá trassaskapur komi þeim í koll, en kaupandi getur trassað þetta, og það gengur út yfir seljanda. (G. Sv.: Er kaupum er rift, missir kaupandi hið keypta). Er ekki hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) svo vel að sjer, að hann viti, að þegar kaupum er rift, geta forkaupsrjettarhafar snúið sjer til seljanda? (G. Sv.: Sá missir, sem ólöglega hefir fengið; hv. 2. þm. Árn. (E. A ) ætli að vera svo vel að sjer, að hann vissi það). Það getur valdið því, að kaupverðið verði ekki borgað; þarf yfirleitt ekki að fara í grafgötur um það, að þetta veldur seljanda miklum óþægindum.

Sú eina hugsun, sem þessi víðtæki forkaupsrjettur er bygður á, er að tryggja sjálfsábúð, en um það þarf ekki að deila, að hjer er oflangt farið. Það var líka hugur landbúnaðarnefndar þingsins 1905 að tryggja sjálfsábúð, en þeim góðu herrum hefir ekki þótt fært að fara svo langt, sem hjer er til ætlast. Það er ekki nema sanngirniskrafa, að leiguliða sje boðinn forkaupsrjettur; hann er ef til vill búinn að búa lengi á jörðinni og gera henni svo og svo mikið til góða, þótt ekki sje krafist, að eigandi fari til Pjeturs og Páls og bjóði þeim jörðina, þótt þeir láti í veðri vaka, að þeir ætli að taka hana til ábúðar.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) segir, að ekki sje meira stjórnarskrárbrot í 2. kafla en í 1. Það er líka rjett, að í þeim kafla er samskonar forkaupsrjettarkvöð. Í lögunum frá 1905 nær hún að eins til jarða í leiguliðaábúð, en hjer er ætlast til, að hún nái til allra jarða, er ganga kaupum og sölum.

Hv. frsm. (J. J.) sagði, að sú eina ástæða væri sjálfsábúðarrjetturinn, að hjer ætti að setja lög, er veittu mönnum frjálsan aðgang að fá að búa á eigin jörðum. Jeg vil ekki kannast við, að þessi regla heimili að leggja haft á allar jarðir undantekningarlaust. Með því tel jeg gengið ofnærri 50. gr. stjórnarskrárinnar. Að þingið 1905 ljet ekki þetta ákvæði ná lengra en til leiguliðajarða verð jeg að skýra svo, að þeir hafi talið sanngjarnt, að leiguliðar hefðu forkaupsrjettinn, en hitt hæpið, og jafnvel ógerning, að leggja þetta haft á allar jarðir í landinu. Jeg skal geta þess, til stuðnings mínu máli, að í grundvallarlög sín hafa sumar þjóðir sett fyrirmæli um, að leggja mætti forkaupsrjettarkvöð á jarðir, til þess að fyrirbyggja, að ákvæði í grundvallarlögum þeirra, er svara til 5. gr. stjórnarskrárinnar 1874, útilokaði heimild til slíkra ákvæða í almennum lögum. Þau ákvæði sýna, að þeir löggjafar hafa ekki talið fráleitt, að slík ákvæði um forkaupsrjett gætu farið í bág við eignhelgina.

Hv. frsm. (J. J.) sagði, að 3. kafli væri þýðingarminstur. Að því leyti er hann það sjálfsagt, að líklegt er, að landssjóður noti sjaldnar forkaupsrjett sinn en hinir, er hafa hann eftir 1. og 2. kafla frv. En hann er ekki þýðingarlítill að því leyti, að hann setur sömu torfærur og hinir. Seljandi verður að fara allar götur upp í stjórnarráð, til þess að vita, hvort landssjóður ætli að nota forkaupsrjettinn eða ekki.

Hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) bjóst við því, að jeg væri móti frv. af þeirri ástæðu,

að einhverjir menn væru í mínu kjördæmi er langaði til að sölsa undir sig jarðir. Það er álíka sennileg tilgáta og sú í garð hv. 2. þm. S.-M. (B.SL), að hann væri á móti frv. af því, að hann vildi hefna sín. (G. Sv.: Það er ekki ósennilegt). Þetta geta þeir talið ekki ósennilegt, er af eigin reynslu þekkja þá tilhneigingu að hefna sín á þingi í einstökum málum, eða að laga sannfæringu sína eftir vilja 2—3 manna í kjördæmi sínu. (G. Sv.: Nefndin hefir haldið málinu ósæmilega lengi). Hún hefir líklega haldið því svo lengi af því, að hún hefir fremur talið ástæðu til að leggjast djúpt þar en í þessu máli.

Hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) segir, að ekki sje áríðandi að halda jörðunum í háu verði. Jeg vil minna hann á, að það hefir ekki litla þýðingu fyrir lánstraust landsins, að fasteignir þess sjeu í háu verði og góðir áliti. Annars skil jeg ekki vel afstöðu þessara góðu manna, sem hugsa sem svo í þessu máli: „Það gerir ekkert til, þótt við nögum úr 50. gr. stjórnarskrárinnar“. En í öðru máli, um húsaleigu í Reykjavík, risu sömu menn upp og hrópuðu hátt um brot á eignarrjetti. Þó var þar að eins að ræða um dýrtíðarráðstöfun til bráðabirgða, en hjer um haft á allar jarðir í landinu um aldur og æfi. (G. Sv.: Það er ekki meiningin, að menn megi ekki hafa það upp úr jörðum sínum, sem þeir geta).

Ef það eru rjettindi manna hjer í Reykjavík, að þeir skuli fá að hafa eins mikið upp úr lóðum sínum eins og þeir geta, þá eiga líka jarðeigendur sama rjett. (G. Sv.: Þeir hafa það líka samkvæmt þessu frv.). Nei, þeir hafa það ekki, því að samkvæmt því hljóta jarðir að falla í verði.

Jeg hygg þá, að jeg hafi að mestu hrakið ástæður hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Jeg hefi sýnt fram á, að hjer er gengið ofnærri stjórnarskránni og að þetta er nýmæli í löggjöfinni, sem á ekki sinn líka. Jeg hefi sýnt fram á, að þessi lög gætu tafið sölu um alveg óákveðinn tíma, því að ef ekki er útgert um málið á 6 mánuðum, þá verður að fitja upp á alveg nýjan leik. Þetta gæti því haft mjög mikil áhrif á fjárhag einstaklingsins og gert honum mjög örðugt fyrir.

Jeg skal svo ekki orðlengja meir um þetta að sinni; jeg hefi nú talað mig dauðan, og er því hægurinn hjá að standa yfir höfuðsvörðum mínum.