28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Björn Stefánsson:

Það hefir verið vikið að því, að það væri skrítið, að nú skyldu koma fram ný andmæli gegn þessu frv. Ræða mín áðan snerist að vísu gegn frv., en þó ljet jeg ekki í ljós, að jeg væri móti stefnu þess yfir höfuð. Jeg hefi látið í ljós, að úr því að ekki hefði verið gengið að því að fresta framkvæmd þjóðjarðasölulaganna, þá yrði jeg að vera á móti þessu máli.

Sömuleiðis ljet jeg í ljós, að mjer þætti gengið ofnærri eignhelginni, ef þetta frv. yrði samþykt. Nú segir hv. þm. V.-Sk, (G. Sv.), að svo sje ekki, og verð jeg þá vitanlega að beygja mig fyrir lagaviti hans.

Hv. frsm. (J. J.) taldi það einkennilegt, að jeg skyldi snúast á móti þessu máli, þar sem jeg þó vildi auka sjálfsábúð í landinu. Jeg þykist ekki komast þar í neina mótsögn við sjálfan mig. Jeg þykist hafa bent á skynsamlegri leið en hv. nefnd í því máli, og jeg tel það mjög illa farið, að hún skuli vilja svæfa mitt frv., en koma í staðinn fram með þetta. Þegar jeg athuga aðgerðir hv. nefndar í öllu þessu máli, þá get jeg ekki varist því að efast um, að nefndinni sje í raun og veru alvara með þann tilgang að vilja auka sjálfsábúð, en taka skal jeg það fram, að það er ekki af neinum hefndarhug til nefndarinnar, að jeg snýst svona við þessu máli.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) segist vera mótfallinn breytingartillögu minni. Jeg hygg nú samt, að ef þessi lög eiga að vera annað en „humbug“, þá sje bráðnauðsynlegt að samþykkja hana.