14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í C-deild Alþingistíðinda. (3281)

160. mál, lántaka til að kaupa og hagnýta fossa

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Þetta frv. er óefað fram komið, eins og líka nál. getur um, til þess, að á þessu þingi kæmist að sú stefna, sem er ríkjandi hjá mörgum, að þjóðfjelagið eigi að hafa í höndum sjer uppsprettulindir afls í landinu. Mun þar sjerstaklega átt við fossa, og margir munu vilja, að námum landsins sje ráðstafað á þá lund. Það er öllum vitanlegt, að þar sem þessar afllindir eru hagnýttar, verða þær undirstaða hinna gífurlegustu framkvæmda og framfara í verklegum efnum. Það er því ekki að undra, þótt menn hallist að því, ef kleift er, að þjóðfjelagið eigi afllindirnar og standi fyrir notkun þeirra. Mönnum finst það æskilegast og vænlegast, að sjálft þjóðfjelagið standi fyrir slíkum framkvæmdum og miðli svo einstaklingum þjóðfjelagsins af gagni þeirra.

Þar með er ekki sagt, hversu tekst að framkvæma þessa hugsun, og víða úti um lönd gengur slíkt skrykkjótt. Eru því um þetta skiftar skoðanir, og telja margir afllindunum best komið í höndum einstakra dugnaðarmanna eða fjelaga, sem brjóta ísinn um framkvæmdir. Nefndin vill í engu gera upp á milli þessara tveggja skoðana. En hitt er víst, að skoðun sú, er fram kemur í frv., er svo rjetthá frá sjónarmiði þingsins, að hún á að vera í fyrstu röð til athugunar og rannsóknar. Því hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu að leggja til, að stjórnin athugi þetta mál gaumgæfilega og undirbúi það, og ef nefnd verður í það skipuð, skuli hún rannsaka þetta atriði mjög vandlega.

Það er vitanlegt, að það frv., er tilefni hefir gefið til þessa frv., Sogsfossafrumvarpið, mun ekki verða afgreitt nú frá þinginu, heldur er því ætlað í milliþinganefnd, ef hún verður skipuð. Hefir nefndinni eigi virst þörf á því, að slíkt frv. sem þetta nái nú fram að ganga, enda þótt það sje að eins heimild, sem raunar ætti ekki að geta gert neinn skaða, og hefir þess vegna afgreitt það á þennan hátt. Jafnvel þótt þetta sje ekki nema heimild, segi jeg, er þetta atriði málsins og önnur þó órannsökuð hjá oss, og mikið af annara þjóða reynslu að læra í þessum efnum.

Jeg hefi fyrir hönd nefndarinnar engu við það að bæta, sem jeg hefi sagt og nál. greinir. Og býst jeg við, að háttv. flm. frv. (B. J.) geti verið ánægður með úrlausn málsins, því að jeg tel ekki vafa á, að hún er affarasælust málinu á þessu stigi. Þótt hann og einhverjir aðrir greiddu frv. atkvæði úr deildinni, þá er það svo samgróið öllu þessu máli í heild, að það verður ekki frá skilið.

Vona jeg því, að þetta mál þurfi ekki að tefja störf þessa líðandi þings.