14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í C-deild Alþingistíðinda. (3282)

160. mál, lántaka til að kaupa og hagnýta fossa

Bjarni Jónsson:

Jeg þakka að vísu nefndinni margt það, er hún hefir sagt í þessu máli, og sömuleiðis hv. frsm. (G. Sv ). Nefndin hefir raunar getið sjer þess til, að frv. sje fram komið sakir frv. í Ed. Þetta er að vissu leyti rjett. Jeg bar frv. fram á þessu þingi vegna þess, að það frv. kom fram í Ed. Jeg hefði ekki borið þetta mál fram fyr en útsjeð væri um ófriðinn, hefði ekki verið við málinu hreyft á þann hátt, er jeg get eigi sætt mig við.

Jeg skal ekki finna að því, að frv. er látið sæta þessum kjörum, en tel þó alls óþarft að vera móti því, að frv. sje samþ. þegar á þessu þingi. Það er ekkert annað en heimild til að taka lán. Er þá meira lagt í hendur stjórnarinnar en með því móti, að þingið sjái um rannsóknina. Það er sjálfsagður hlutur, að landið hafi fyrirtækið í sinni hendi. Það er sjálfsagður hlutur, að stjórnin hafi valinn ráðunaut í þessum málum, og það er sjálfsagður hlutur, að sú nefnd sje til í þessu landi, er hafi umsjón með öllum afllindum landsins, fossum, hávöðum og öðru, er veitir starfhæft vatnsafl. Það er sjálfsagt, að enginn megi reka slíka iðn nema í samráði og samvinnu við stjórnina, og hún hafi umsjón með þeim rekstri öllum. Jeg efa og ekki, að hve nær og hvar sem sú rannsókn fer fram, sem fjárhagsnefnd vill gera láta, verði sú niðurstaðan. Jeg get fullvissað háttv. deild, að sú niðurstaða er nú orðin í Noregi, þar sem mest hefir verið starfað í þessum efnum, og menn iðrast nú stórlega að hafa nokkurn tíma ljeð útlendum mönnum fangs á afllindum landsins.

Háttv. nefnd segir, að til beislunar fossanna þurfi útlent fje. Það er sjálfsagt. Bæði má taka lán og einnig heimila erlendum mönnum að leggja fje í fyrirtæki landsins. Mín till. miðar ekki að því að gera þeim mönnum skaða, er leggja vilja fje í íslensk fyrirtæki, heldur vil jeg allra hag. Vegur þeirra er ekki lokaður, heldur verða þeir einungis að lúta stjórn landsins, og fá ekki annan gróða en fyrirtækið gefur af sjer. Mjer sýnist ekki neinn geta sagt, að þetta sje óbilgjörn krafa, og vildi jeg sjá framan í þann þingmann, sem segir það.

Jeg vil þó láta mjer lynda þá skipun málsins, er nefndin leggur til. Hún leggur áherslu á, að málið sje rannsakað, og vil jeg leggja mitt orð til, að það sje vel rannsakað, svo að ekki sje niðurstaða málsins bygð á mínum orðum, því að satt er það, að ekki er jeg fræðimaður í þessu, þótt jeg hafi á ferðum mínum kynst því allnákvæmlega í Noregi, og átt þar tal við marga þá menn, sem við þetta mál hafa fengist og kunnugastir eru, svo sem þingmenn og hluthafa og eigendur slíkra fyrirtækja. Hefi jeg og sjeð áætlun fossafjelagsins „Ísland“, myndir og uppdrætti. En þó er það rjett, að jeg er enginn sjerfræðingur í þessum efnum, svo að jeg vil gjarnan rannsóknina, en efa ekki, hver niðurstaðan verður, ef rannsóknin er viturlega og samviskusamlega af hendi leyst.