14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (3284)

160. mál, lántaka til að kaupa og hagnýta fossa

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki svarað þessari fyrirspurn háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) öðru en því, að mjer er kunnugt um, að fyrverandi landritari, hr. Klemens Jónsson, var beðinn að athuga og rannsaka málið. Það getur vel verið, að skýrsla sje komin frá honum. Að minsta kosti hafði hann góð orð um að hafa lokið rannsókninni áður en þingi væri slitið, en sú skýrsla hefir þá komið til atvinnumálaskrifstofunnar, og jeg ekki átt kost á að sjá hana. Honum var þetta falið, þar sem hann er mjög æfður embættismaður og hefir sjerstaklega lagt talsverða stund á sagnafróðleik, og er auk þess mjög góður lögfræðingur.

Jeg hefði ef til vill getað svarað þessari fyrirspurn nánar, ef jeg hefði búist við henni nú.