29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í C-deild Alþingistíðinda. (3288)

176. mál, vitabyggingar

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Það er öllum auðsætt, hvaða breytingar er farið fram á í þessu frv., sem sje að greina vitamálin að fullu frá landsstjórninni, eða með öðrum orðum: í stað þess, að áður hefir orðið að leita til þings og stjórnar um vitabyggingar, og vitagjöldin hafa runnið í landssjóð, eiga nú vitamálin að sjá um sig sjálf, þ. e. vitagjöldin renna til rekstrarkostnaðar og byggingar vita, og landsstjórninni heimilast að taka nægilega stór lán, á ábyrgð landssjóðs, til að byggja nýja vita. Tilgangurinn með þessu er sá, að vitabyggingar geti gengið fljótar en þær hafa gengið hingað til.

Það er öllum kunnugt, að strendur þessa lands eru afarhættulegar og óvanalega fátækar að vitum. Vantar geisilega mikið á, að vjer höfum þá vita, sem brýnust þörf er á. Eftir því sem siglingarnar aukast, eftir því verður vitaskorturinn tilfinnanlegri og þörfin brýnni. Það er auðsætt, að þessum þörfum verður að sinna stórum betur í náinni framtíð; en með því fyrirkomulagi, sem nú er, verður ekki nógu fljótt að gert, og verður það því að teljast nauðsynlegt, að vitabyggingar verði aðgreindar frá öðrum fyrirtækjum, er landssjóður veitir fje til. Breytingin er sú, að í stað þess, að vitagjöld hafa hingað til verið tekjulind fyrir landssjóð, þá er það ekki svo hjer eftir, því að það, sem vitagjöld fara fram yfir rekstrarkostnað vitanna, rennur ekki í landssjóðinn, heldur til afborgana á þeim lánum, sem tekin eru til nýbygginga.

Mönnum mun ekki blandast hugur um, að með því að koma góðri skipun á vitamálin væri ekki lítið unnið. Sjávarútvegurinn yrði miklu tryggari en áður. Það mundi bjarga ekki svo fáum mannslífum, og sjómenskan yrði ekki annað eins hættuspil og áður. Það er áreiðanlega hægt að rekja mörg hörmuleg slys til vitaleysisins við strendur landsins, bæði að fornu og nýju. Hjer þarf skjótra aðgerða. Er þegar mikil bót í því, að það sje gert, sem hjer er farið fram á, enda þótt kunnugir viti, að þótt allir þeir vitar væru bygðir, sem nefndir eru í frv., væri strönd Íslands þó ekki líkt því eins vel vituð og strendur sumra annara landa, eins og t. d. Skotlands og Noregs. En að því verður að keppa, því að ef oss á að verða lengra lífs og framtíðar auðið, hljótum vjer að verða siglingaþjóð, og þá verðum vjer að gera allt, sem aðrar þjóðir hafa gert hjá sjer, til að gera siglingar tryggar.

Jeg vona, að hv. deild taki máli þessu vel, og býst ekki við neinum andróðri. Vitaskuld getur orðið ágreiningur um, hvar vitastæðin verði valin heppilegust, en við því höfum vjer reynt að sjá, með því ákvæði í 4. gr., að hægt sje að breyta um legu vitanna, í samráði við þá menn og þær stofnanir, er best hafa tök á að vita, hvar þeim verði best fyrir komið. Jeg þykist vita þess einstök dæmi, að menn, sem búa nálægt sjó, vilji gera breytingar á fyrirkomulaginu. Að því, sem mjer er kunnugt, hygg jeg þurfa vita á öllum þeim stöðum, sem nefndir eru í frv., og hvort breytingar eru nauðsynlegar á því skal jeg ósagt láta, en vel getur þeirra þurft víðar.

Sjávarútvegsnefnd hefir haft mál þetta til meðferðar, og geta hv. þingdeildarmenn lesið í athugasemdunum við frv., hvernig það er fram komið og hver hefir undirbúið það. Jeg talaði við hæstv. forsætisráðherra um málið og spurði hann, hvers vegna stjórnin hefði ekki lagt það fyrir þingið, og má jeg segja, að honum þótti það ekki hafa verið nægilega undirbúið; einkum hefði hún verið í vafa um, hvort vitastæðin væru svo heppilega valin, sem æskilegast væri. Þess vegna tók nefndin upp ákvæðin í 4. gr., og þótti sem með því væri girt fyrir þann agnúa.

Jeg skal leyfa mjer að geta þess, að í 2. gr., staflið c., er ritvilla, sem er mjer að kenna. Þar stóð í frv. vitamálastjóra: „á Reykjanesi“. Hugði jeg, að þar væri átt við Reykjanes á Ströndum, ekki síst þar sem þokur eru þar tíðar, og þótti vissara að taka það fram í frv. En á eftir átti jeg tal við vitamálastjóra, og sagði hann mjer þá, að hann hefði átt við Reykjanes syðra. Fjellst jeg á það með honum, að meðan ekki væru fleiri þokulúðrastöðvar, væri ljett að hafa eina þar. Hef jeg því komið með brtt., sem kemur við 2.umr. málsins.

Hef jeg svo ekki fleira um málið að segja, en fel það hyggindum og velvild hv. deildar, og vona, að það fái góðar undirtektir.