03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í C-deild Alþingistíðinda. (3292)

176. mál, vitabyggingar

Björn Kristjánsson:

Það er alveg satt, sem háttv. frsm. (M. Ó.) sagði við 1. umr., að vitamálastjórinn sendi ráðuneytinu þetta frv. til athugunar í vetur, en af því að stjórnin sjálf er ekki vitafróð, þá sneri hún sjer til kunnugs manns, manns, sem um alllangt skeið hefir verið hafnsögumaður á „Islands Falk“, og hann gaf stjórninni upplýsingar, sjálfsagt eftir bestu samvisku, því að hann er mjög vandaður maður. Hann sagði, að ef meiningin væri sú, að koma á samskonar vitafyrirkomulagi sem tíðkast erlendis, þá væri sjálfsagt að samþykkja frv. En stjórnin leit svo á, að landið væri svo stórt, en þjóðin svo fámenn, saman borið við landsstærðina, að ekki væri hægt að ráðast í svo stórt fyrirtæki fjárhagsins vegna. Þessi maður taldi nær liggja að bæta við 10 stórum vitum, í stað þeirra 21, sem þetta frv. ráðgerir, og auk þess 11 smærri vitum, og með því lagi mundi siglingum vorum borgið. Hann taldi þessa vita upp í þeirri röð, sem hann áleit að þeir ættu að setjast upp. Þokulúðra sagði hann ekki mega setja þar sem skerjótt væri, því að það getur beinlínis orðið villandi og teymt skipin upp að ströndinni, sem þau eiga að varast, eins og menn sjálfsagt hafa sjeð í Lögbirtingablaðinu, þar sem birt hefir verið aðvörun um, hvernig lúðurhljómurinn heyrist. Einn slíkur staður er Papey; þar taldi hann ekki mega vera þokulúður.

Þótt jeg nú vilji, eins og háttv. frsm. (M. Ó.), mjög hlynna að sjávarútveginum, eins og yfirleitt öllum atvinnuvegum landsins, þá vil jeg þó, að slík mál sem þetta sjeu vel athuguð, og þætti mjer ráðlegast, að þessu frv. væri nú vísað til stjórnarinnar til athugunar enn að nýju; það ætti ekki að tefja fyrir framgangi málsins í raun og veru, með því að 4 vitar eru nú í fjárlögunum, og áætluðu tekjurnar eru líka komnar inn í þau fyrir næstu 2 ár. En auk þess fer frv. fram á það, að vitarnir verði teknir út af landsreikningnum, en það verð jeg að telja mjög skaðlegt, og hefi bent á það í ritgerð áður, að altaf, þegar beðið er um lán fyrir landið, er spurt um landsveltuna, og er þess vegna þýðingarmikið að klípa ekki utan af landsreikningnum, heldur bæta inn í hann sjóðum, sem landið á, og yfirleitt telja þar í alla eign landsins. Þetta atriði verð jeg að leggja áherslu á.

Annars er heppilegast að undirbúa málið sem best, og til þess álít jeg að best sje annaðhvort að fella frv. eða vísa því til stjórnarinnar, sem vitanlega mundi þá leita álits vitafróðs manns.