16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í C-deild Alþingistíðinda. (3298)

56. mál, einkasala á sementi

Flm. (Einar Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þetta frv. En jeg skal ekki tala mikið um það að sinni, því að ástæðurnar eru skýrt teknar fram á þgskj. 58.

Jeg skal játa það, að verði frv. þetta að lögum, þá er talsvert aukið starf stjórnarinnar, en jeg sje ekki ástæðu til að setja það fyrir sig, því að það er auðsætt, að það er almennings hagur, að þetta komist til framkvæmda. — Jeg hygg líka, að það sje almennur vilji að verða hjer á landi, að landsstjórnin taki í sínar hendur einkasölu á stærstu vörutegundum, svo sem steinolíu, kolum og sementi.

Jeg get ímyndað mjer, að nauðsynlegt sje að fjölga starfsmönnum stjórnarinnar, ef þetta frv. verður að lögum. Jeg hugsa mjer þetta gert á þann hátt, að landið hafi og kosti erindreka í útlöndum, sem annist um innkaup á sementinu og öðrum þeim vörutegundum, sem einkasala yrði lögleidd á. Sumir hugsa sjer, að það verði Íslendingur, búsettur í Vesturheimi. Jeg býst við, að það sje ekki fjarstæða. En um það er engin nauðsyn að ræða, á þessu stigi málsins.

Jeg geri ráð fyrir, að spurt verði að, hvort ekki sje rjett, að landið leggi eitthvað á vöruna, og nái á þann hátt tekjum í landssjóð, líkt og ætlast er til í frv. þeim, sem fram hafa komið um einkasölu, t. d. á kolum og steinolíu. Hægra er að ganga inn á, að landið græði á þeim vörutegundum, því að þær brúkast meðfram til framleiðslurekstrar, og sá skattur yrði því lagður á framleiðslu í landinu. Um sementið er nokkuð annað mál. Sú vörutegund er aðallega notuð til þess að varna eyðileggingu og fá traust og varanleg mannvirki sett í framkvæmd, og því ekki beinn hagnaður af henni fyrir framleiðslu í landinu.

Þykist jeg ekki efa, að taki landið í sínar hendur að útvega og selja þessa vörutegund, þá vinnist einkum þrent, sementið lækkar í verði, auðveldara verður að fá það, og gæði þess verða aukin.

Notkunin á sementi er sífelt að aukast í landinu, bæði til bygginga og brúargerða, því að víða hagar svo til, að sandur og grjót er nóg og nærri hendi, en sement oft dýrt og má ske ófáanlegt. Það væri því stórhagnaður, ef þetta þrent ynnist.

Vænti jeg, að málinu verði vísað til fjárhagsnefndar og greinargerð frv. athuguð.