16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í C-deild Alþingistíðinda. (3300)

56. mál, einkasala á sementi

Matthías Ólafsson:

Það fer fjarri því, að verra sje að fara með sement en með steinolíu; steinolía mun vera einhver varhugaverðasta vörutegundin í meðförum. En það er annað, sem jeg hefi að athuga við frv.; það brýtur í bága við aðalhugsun einokunarinnar, sem sje þá, að landið hafi hagnað af henni. Það ætti ekki að heita frv. um einkasölu landsstjórnarinnar á sementi, heldur frv. um skyldu landsstjórnarinnar til að sjá landsmönnum fyrir sementi, og taka það verð fyrir, er landsmönnum sjálfum sýnist að borga. Landsstjórnin myndi hafa mikið fyrir þessu; henni yrði það verra en tekjulaust, því að vörutollurinn fjelli burt strax er hún tæki einkasöluna að sjer. Þetta væri galli á hvaða einkasölufrv. sem væri; einokun á að vera reist á þeim grundvelli, að þá lendi sá ágóði í landssjóði, sem annars myndi lenda hjá öðrum. Það er, með öðrum orðum, kaupmannagróðinn, eða að minsta kosti nokkur hluti hans. Ef landsstjórninni væri ætlað að græða á einkasölunni, væri jeg fylgjandi frv.; því að það er mitt álit, að hægra væri henni að hafa sements- en steinolíuverslun.

Það er áríðandi, að frv. þetta sje vel athugað, og er það tillaga mín, að því verði vísað til sjerstakrar nefndar.