18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í C-deild Alþingistíðinda. (3309)

67. mál, vélgæsla á mótorskipum

Flm. (Matthías Ólafsson):

Þetta frv. stendur í nánu sambandi við annað frv., sem áður er fram komið hjer í deildinni, sem sje frv. til laga um stofnun vjelstjóraskóla í kaupstöðunum. Nái það frv. fram að ganga, er nauðsynlegt að semja lög, er tryggi þeim mönnum forrjettindi að vjelstjórastöðunum, sem fengið hafa þá þekkingu, er vjelstjóraskólarnir veita. Falli það frv., þá liggur auðvitað beint fyrir að fella þetta líka. En jeg vona, að til þess þurfi ekki að korna. Það er svo mikilsvarðandi mál fyrir annan aðalatvinnuveg vorn, sjávarútveginn, að kunnátta þeirra manna, sem vjelum eiga að stjórna á mótorskipum, aukist að mun frá því, sem nú er, að það væri varla vansalaust, ef þingið daufheyrðist við þessum kröfum. Það eru gífurlega miklar eignir, sem stöðugt eru í hættu, meðan þekking manna á meðferð vjelanna er ekki meiri en enn á sjer stað. Og það væri gagnslaust að stofna skóla, til þess að veita nauðsynlega þekkingu, ef lærðu mönnunum væri ekki trygður forrjettur að loknu námi. Hingað til hefir það tíðkast, og mundi geta viðgengist framvegis. ef ekkert lagaeftirlit væri með því haft, að menn hafa getað krækt sjer í formensku eða vjelstjórastöðu, án þess að hafa nokkra þá þekkingu, sem til þess útheimtist. Geti þeir að eins á einhvern hátt komið sjer í mjúkinn hjá útgerðarmönnunum, standa þeim allar stöður opnar.

Jeg þarf ekki að fjölyrða um þetta mál að sinni, en leyfi mjer að leggja til, að frv. verði sett í nefnd, og finst mjer sjávarútvegsnefnd vera sjálfkjörin til þess áð taka bæði þetta frv. og frv. um stofnun vjelstjóraskóla til meðferðar. Frumvörpin eru svo nátengd, að sama nefndin verður að fjalla um þau bæði. Þau snerta sjávarútveginn eingöngu, svo að þau eiga hvergi fremur heima en í þeirri nefnd. Þótt annað þeirra fjalli um stofnun nýrra skóla, get jeg ekki sjeð, að mentamálanefnd ætti að taka það til meðferðar. Jeg vænti því þess, að hin hv. deild feli sjávarútvegsnefnd frv. þetta, og vona, að hún taki því vel. Að minsta kosti get jeg sjeð af forlögum þessa frv., hvernig hinu muni reiða af. Nefndin mun fljótt komast að raun um, að annaðhvort er að samþykkja þau bæði, eða hvorugt.