27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

84. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Gísli Sveinsson:

Jeg stend upp að eins til að gefa væntanlegri nefnd eina bendingu til. Jeg geng út frá því, að nefndin athugi bendingu háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Ef nefndin samt sem áður kæmist að þeirri niðurstöðu, að frumvarpsgreinin ætti að koma inn í lögin um forkaupsrjett leiguliða, þá ætti hún að koma á eftir 4. gr. Líka vil jeg leyfa mjer að benda nefndinni á það, að greinina þarf að orða öðruvísi en gert er í frv. Best er að gera slíkar breytingar í nefnd, til þess að sem minst þurfi að tefja við frv. á eftir. — Frv. segir, að um forkaupsrjett jarða, sem eru í sjálfsábúð, skuli gilda sömu ákvæði og um forkaupsrjett jarða, sem eru í byggingu. Um þær jarðir gildir sú regla, að ábúandinn hefir forkaupsrjettinn, og sveitarfjelagið fyrst að honum frágengnum. Sje jörðin í sjálfsábúð, sem seld er, þá er enginn „ábúandinn“. Væri því rjettara að segja, að sveitarfjelagið eigi forkaupsrjettinn að þeim jörðum skilyrðislaust.