27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í C-deild Alþingistíðinda. (3320)

84. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Margt af því sem, jeg ætlaði mjer að segja, hefir þegar verið tekið fram af háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), og því sleppi jeg. En eitt atriði er þó eftir, sem jeg vil leyfa mjer að benda væntanlegri nefnd á. Með því að ákveða fortakslaust, að sveitarfjelögin skuli eiga forkaupsrjett að jörðum, sem ganga úr sjálfsábúð, þá gæti verið fyrir það girt, að leiguliði fengi jörðina, sem vildi kaupa hana, en væri þess ekki um kominn að gera það strax. Nú getur efnahag manna oft verið þannig varið, að þeir verði að taka jörð á leigu fyrst, í von um að geta keypt hana seinna. Þess vegna þyrfti að vera ákvæði um það, að sá maður geti altaf fengið jörðina til ábúðar, sem ætlar sjer að kaupa hana, þegar hann getur. Því má ekki gleyma, að varhugavert getur verið að gefa sveitarfjelögunum fortakslausan forkaupsrjett.