10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í C-deild Alþingistíðinda. (3323)

84. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Benedikt Sveinsson:

Mjer finst hv. landbúnaðarnefnd ekki hafa tekist að orða breytingar sínar svo liðlega sem skyldi. 1. gr. er nú þannig orðuð: „Þegar jörð í sjálfsábúð er til sölu, skal sá hafa forkaupsrjettinn, er sækir um ábúð á henni. Nú sækja fleiri en einn um ábúðina, og selur seljandinn þá þeim, er fær ábúðina“. Þetta er bæði óviðkunnanlegt og óskýrt orðalag. Það, sem vakir fyrir hv. nefnd, kemur betur fram í nál. á þgskj. 342. Þar stendur: „Ef margir sækja um jörðina, situr sá fyrir kaupunum, sem seljandi kýs helst fyrir ábúanda á henni“. Þetta er gleggra orðað en hitt, og ætti hv. nefnd að koma með brtt. í þá átt til 3. umr.

Yfir höfuð tel jeg það efasamt, hvort frv. sje til mikilla bóta; það er t d. hart fyrir bónda, sem getur ekki þegar í stað flutt á jörð, en ætlar að gera það bráðlega, að mega ekki tryggja sjer hana til ábúðar með því að kaupa hana, eða fyrir búlausan mann, sem ekki hefir ástæður til að reisa bú á sama ári og jörðin er seld. Þessi ákvæði hefta viðskiftafrelsið og geta komið hart niður. Auk þess geta höft á sölu jarða, slík sem hjer er gert ráð fyrir, rýrt þær í verði; salan verður torveldari og færri að keppa um kaupin.