10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í C-deild Alþingistíðinda. (3325)

84. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Frsm. (Jón Jónsson):

Þótt jeg játi, að niðurlag 1. gr. frv. sje ekki sem heppilegast orðað, þá hygg jeg þó, að allir skilji, við hvað átt er, en þó mun nefndin taka þetta til nýrrar athugunar. Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að höft þau, sem lögð væru á seljanda með að velja sjer kaupanda, mundu rýra jörðina í verði. Jeg fæ ekki sjeð, að svo þurfi að verða. Seljandi hefir, eftir sem áður, kost á að velja um kaupendur, Hann er bundinn við það eitt að selja þeim, sem ætlar að fara sjálfur að búa á jörðinni. Jeg álít svo mikla þörf á að tryggja þetta, að eigi megi frá því hverfa, og hættan lítil á, að menn fái ekki fult verð fyrir jarðir sínar eftir sem áður, og þótt fyrir gæti komið, að einhver braskarinn byði ofurverð í jörð, sem hann mundi ekki bjóða, ef bann neyddist sjálfur til að fara að búa á henni, þá er, vegna almenningsheilla, varla í það horfandi, þótt einhver seljandi kynni, fyrir íhlutun löggjafarvaldsins, að fara á mis við þann gróða. Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) kvaðst ekki geta sætt sig við það, að fátækur maður yrði að hrekjast burt af ábúðarjörð sinni fyrir það, að hann neyddist til að selja hana, hve gjarnan sem bann vildi halda áfram að búa á henni. Það er satt, að það er leitt, ef slít þyrfti að koma fyrir, en jeg hygg, að sjaldan mundi það koma fyrir. Það myndi að jafnaði geta orðið samkomulag um það, að hann fengi að búa áfram á einhverjum hluta jarðarinnar, og það mundi honum að líkindum nægja, ef efni hans eru svo til þurðar gengin, að hann neyðist til að selja jörðina.

Mjer finst svo erfitt að ganga tryggilega frá því, sem er aðalatriðið í máli þessu, því, að sem flestir hafi sjálfsábúð, nema að ákvæðin sjeu skýr og undantekningalaus. Jeg er hræddur um, að öll miðlunarákvæði greiði fyrir því, að farið verði kringum lögin. Þó mun nefndin taka þetta atriði til íhugunar.