10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í C-deild Alþingistíðinda. (3338)

98. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Einar Arnórsson:

Jeg verð að taka undir mál þeirra háttv. þingmanna, sem talað hafa í þessu máli, að frv. mætti vera betur úr garði gert. En það stendur þó til bóta því að eftir er ein umr., eða tvær ef málið er tekið út af dagskrá.

Jeg vil minnast á eitt atriði, sem mjer þykir vera grundvallaratriði í þessu máli, og það atriði hefir áður komið til umr. Á landið að eiga jarðirnar, eða á það ekki að eiga þær? Þessar tvær skoðanir hafa glímt hjer í Nd. undanfarið, og hjer hefir það orðið ofan á, að einstakir menn skuli eiga þær. Hin stefnan, sú, að ríkið skuli eiga fasteignir í landinu, hefir verið kveðin niður hjer í deildinni, en hefir nú rekið upp höfuðið í nýrri mynd, í frv. á þgskj. 144. Það er áreiðanlega angi af þeirri rót, sem hjer gægist fram. Jeg vil ekki gera tilraun til að gera upp, hvor stefnan sje rjettari, en mjer skilst, að þær megi ekki báðar saman fara um sinn. Áður en löggjafarvaldið fer að reyna að klastra upp löggjöf um forkaupsrjett og þesskonar, ætti það að ráða við sig, hvorri stefnunni skuli fylgja í framtíðinni. (J. J.: Það kemur ekki málinu við). Skrítið, ef það kemur ekki málinu við, hvort sú stefnan á að rísa upp í dag, sem fjell í gær.

Viðvíkjandi frv. þessu hafa háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) tekið margt. rjettilega fram. Þó skilst mjer, að margt þurfi fleira að athuga við þetta frv., bæði að efni og formi, ef því á að verða lengra lífs auðið. T.d. sakna jeg eins ákvæðis, um það er jörð er seld og forkaupsrjettarfyrirmæli brotin. Ef jeg á jörð, sem jeg vil selja, er mjer skylt að bjóða landssjóði hana. Ef jeg býð landssjóði ekki forkaupsrjettinn, stendur ekkert um það í frv., hve langur tími þurfi að líða frá því, er sala fór fram, og til þess, er landsjóður gerir gildandi rjett sinn. Þetta vil jeg benda nefndinni á til athugunar. Þetta er sjálfsagt atriði, sem þarf að taka til greina, því að það er hart fyrir mann að þurfa að biða langan tíma eftir vissunni um að vera rjettur eigandi jarðarinnar,

Annars skal jeg geta þess, að jeg held, að ef öll þessi lagaflækja á að komast í framkvæmd, væri meir en lítið ógaman að eiga við það. Fyrst er að bjóða ábúanda jörðina og ganga eftir honum, og er hann hefir gefið sig frá, þá til hreppsfjelagsins, og er það hefir neitað, þá loks til landsstjórnarinnar. Með öðrum orðum, hjer á ekki einungis að fara frá Heródesi til Pílatusar, heldur frá Pílatusi til hins þriðja, sem jeg kann ekki að nefna. Jeg veit nóg dæmi þess, að það getur verið fjárhagslegt lífsskilyrði fyrir mann, að sala gangi fljótt. Þessir vafningar og vafstur gæti beint orðið til þess, að eigandi, sem vildi selja, gæti orðið gjaldþrota meðan á forkaupsrjettarbraskinu stendur. Því að ef jeg þekki rjett gang mála hjer á þessu strjálbygða landi, mundi þessi þrefalda krókaleið taka ekki lítinn tíma. Þar að auki mun þetta, þó að jeg vilji ekki segja, að það sje stjórnarskrárbrot, stappa nærri broti á anda 50. greinar stjórnarskrárinnar um, að eigi skuli setja mönnum hömlu í veginn til að nota frjálslega á eignir sínar.

Þetta frv. er væntanlega komið fram í því skyni að fyrirbyggja, að einstakir menn safni miklum jarðeignum. En fyrir það fyrsta myndu lögin ekki ná fyllilega tilgangi sínum, því að jeg býst við, að stjórn, sem situr í trausti þings, er býður að selja þjóðjarðir, væri ekki áfjáð í að kaupa hvert vesældarkot. Það væri líka skrítin regla að selja mönnum annan daginn bestu jarðirnar, en kaupa ef til vill aumustu kotjarðirnar hinn daginn. Jeg skil ekki, að nein kostajörð verði eftir handa landssjóði, ef hver ábúandi eða hreppsfjelag kaupir, þegar góðar jarðir bjóðast, nema tekin sje upp sú stefna, að ríkið skuli eiga allar jarðirnar. (J.J.: Það er ekki meiningin). Jeg veit ekki, hver er meining flutningsmanna með þessum lögum. En þessi hræðsla við, að einstakir menn nái miklum jarðeignum undir sig, er nú orðin á eftir tímanum. Sú var tíðin, á 12., 13., 14., 15., 16., 17. og alt fram á 18. öld, að auðugir menn sóttust eftir jarðeignum. Var það fyrst og fremst af því, að þeir gátu ráðstafað ám og kúm sem kúgildum, og fengið þannig hærri rentur af kúgildum sínum en ella. Sjerstaklega voru í kaþólskum sið ákvæði um bann við okri. Þá var það regla, að ekki mátti „byggja dautt fje á leigu“, en kvikan fjenað mátti leigja. Því hlóðust kúgildi á jarðir. Þau voru leigufjenaður.

Eina ráðið, einkum eftir að landsmenn sleptu allri verslun úr höndum sjer, til að ávaxta peninga hjer á landi var því að kaupa jörð, leggja kúgildi til hennar og byggja á leigu. Hitt var þó engu síður títt, að menn vörðu miklu fje í silfurmuni, belti, borðbúnað og aðra slíka skrautgripi, eða ljetu liggja ofurfje á kistubotninum vaxtalaust. En ráðsettir menn ávöxtuðu þó mjög fje sitt á þann hátt, er jeg nefndi áðan. Nú er alt þetta gerbreytt. Nú borgar sig ekki að eiga jörð, móts við að eiga fje sitt í sjávarútvegi, iðnaðarfyrirtæki eða verslun, nema þá jörðina, er maðurinn býr á sjálfur og ræktar sem hann getur best. Jeg þykist vita, að því einu muni svarað, að menn geti „spekúlerað“ í verðhækkun jarðanna. Það getur hugsast, og er líka sú eina frambærilega ástæða, að menn kaupa jarðir til að braska með þær, en ekki til þess að eiga þær.

Svo er eitt atriði, sem snertir öll þessi lög um forkaupsrjett, sem gerir það að verkum, að hver maður, sem vill, getur farið kringum öll ákvæðin, ef bann hefir ofurlítið nasavit Hann þarf ekki annað en hafa skifti að einhverju eða ðllu leyti. Það er hægt að gera þannig, að engin gildandi lög, og ekki heldur ákvæði þessa frv., nái til. Ef jeg t. d. á lóðarskækil í kaupstað, og vil fá jörð, þarf jeg ekki annað en segja við jarðareigandann: „Seldu mjer jörðina þína. Jeg skal borga hana vel, og þú tekur lóðarskikann upp í hana; jeg skal vinna það til að gefa í milli, ef þú krefst þess“. Ef hinn gengur að þessu, stendur löggjafinn uppi ráðalaus gagnvart þessu. Hann getur ekki sett ríkari ákvæði, því að það er stjórnarskrárbrot að skylda menn til að selja eign með öðrum kjörum en þeir geta fengið annarsstaðar.

Landssjóður getur ekki tekið lóðarskækilinn og borgað með honum. Held jeg því, að búa verði tryggilega um þetta atriði, ef að haldi skal koma,

Að lokum vil jeg drepa á eitt atriði, er skiftir ekki hvað minstu máli í þessu sambandi, og það er þar sem löggjafarvaldið á fullan rjett til að heimila hreppsfjelögum eða landssjóði forkaupsrjett, og það er það tilfelli, þegar í ráði er að selja til útlanda, mönnum búsettum erlendis. Liggur einna næst að hugsa um það.

Ef hv. landbúnaðarnefnd vildi athuga þetta, sem jeg hjer hefi drepið á, væri jeg henni mjög þakklátur, án þess þó að jeg vilji segja nokkuð um það, hvort kostur er á að setja sæmileg lagaákvæði um þessi efni.