10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í C-deild Alþingistíðinda. (3341)

98. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Frsm. (Jón Jónsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að tala mikið nú, því að nefndin vill taka til greina þær óskir, sem komið hafa, um að taka málið út af dagskrá.

Eitt þykir mjer undarlegt í þessu máli, og það er, að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) skuli nú vera á móti þessu máli, því að jeg man ekki betur en að hann, fyrir ekki löngu síðan, hafi flutt frv. líks efnis og þetta. Jeg skal játa það, að mjer er þetta ekkert kappsmál, því að jeg álít ákvæði frv. vera gagnslítil.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) spurði um, hvað við meintum með kostnaði. Jeg skal svara því, að við meintum þann kostnað, sem stafaði af kaupunum.

Annars vil jeg taka það fram, að stefna okkar er vitanlega ekki sú, að landssjóður eigi að fara að braska með jarðir, eða kaupa allar jarðir, sem hann nær í, sem vjer teljum það sama. En hitt þykir oss undarlegt, að sumir menn virðast nú vera að breytast, því að þeir, sem áður voru með landssjóðsbraski með jarðir, sýnast nú sumir vera orðnir því mótfallnir.

Jeg vil láta það í ljós, að jeg tel það gott, að umræður skyldu verða svona ítarlegar um þetta mál, því að það er full nauðsyn á að athuga það vandlega. Aðfinningum þeim, sem fram hafa komið, tel jeg ekki þörf að svara nú, þar sem málið verður tekið til nýrrar athugunar. Bendingum um það, sem betur má fara, tekur nefndin þakksamlega.

Jeg er alveg samdóma hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um það, að heppilegast muni vera að steypa saman öllum þessum þremur frv. og gera úr þeim eina heild, en þá þarf að umsteypa alveg frv., en til þessa þarf tíma, til undirbúnings, og því lýsi jeg yfir því, að jeg óska, að málið sje tekið út af dagskrá og þessari umr. frestað.