02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í C-deild Alþingistíðinda. (3354)

116. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Það er kann ske ekki að undra, þótt stjórnin taki svona í þetta mál. En komi álit sýslunefndar um, að hún sje því meðmælt, að þessi skifting verði gerð, þá fæ jeg ekki sjeð, hvað vantar á góðan undirbúning málsins. Jeg gat þess, að sýslunefndin mundi bráðum hafa fund með sjer, og býst ekki við svo fljótri afgreiðslu þessa máls hjer á þinginu, að á áliti hennar muni standa.

Sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu sje jeg ekki að geti gert kröfu til að halda þessu kauptúni, því að samkvæmt lögum frá 1875 verða sýslumenn að sætta sig við hvaða breytingar, sem gerðar eru á lögsagnarumdæmi þeirra.

Mjer þótti gott að heyra, að hæstv. forsætisráðherra var ekki mótfallinn því, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, því að þaðan vænti jeg góðs eins, treysti því, að hún sýni Siglfirðingum þá velvild og sanngirni að taka ástæður þeirra til greina. Kostnaðaraukinn fyrir landssjóð verður ekki svo verulegur, að nokkuð sje úr honum gerandi, enda enginn vafi, að landssjóður vinnur miklu meira fje en hann þarf út að leggja, fram yfir það sem nú er, eða 500–1.000 kr. Sem sagt ber jeg það traust til deildarinnar, að frv. nái fram að ganga, þrátt fyrir undirtektir hæstv. forsætisráðherra.