08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í C-deild Alþingistíðinda. (3361)

122. mál, sala á þjóðjörðinni Höfnum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hafði að vísu ekki kynt mjer þetta mál, og býst við, að atvinnumálaráðherra svari því, sem beint var til stjórnarinnar í ræðu háttv. flm. (Þór. J.). Jeg hygg, að ráðuneytið hafi ekkert á móti því, að málið sje athugað í nefnd. Annars verð jeg að segja það, að það er hart, hvort sem um þjóðjörð eða kirkjujörð er að ræða, þegar ábúanda þykir jörð ofhátt metin, eða stjórnin hækkar verðið, ef hann þarf ekki annað en að fara til þingsins til að fá verðið lækkað.

Nefndin getur auðvitað athugað öll skjöl þessu máli viðkomandi, og látið svo uppi álit sitt. En verði frv. þetta samþykt, þá er ekki um annað að gera fyrir stjórnina framvegis en að gæta þess einkum, að heimta ekki ofmikið fyrir jarðirnar, og það þótt nýlega hafi verið sagt í umr. um þjóðjarðasölu, að stjórnin hefði frjálsar hendur til að hækka verðið, ef henni sýndist svo. Og nú, þegar búið er að fella frv. um frestun á sölu landssjóðsjarða, þá á að selja við lækkuðu verði einhverja mestu kosta- og hlunnindajörð í allri Húnavatnssýslu, og ef til vill þótt víðar væri leitað. Að svo er veit jeg, því að jeg er uppalinn á Skagaströnd og þekki jörðina vel.