08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í C-deild Alþingistíðinda. (3363)

122. mál, sala á þjóðjörðinni Höfnum

Matthías Ólafsson:

Jeg býst við, að hv. flm. (Þór. J.) gangi þess ekki dulinn, hvers vegna jeg stend upp, því að honum er kunnug afstaða mín til allrar þjóðjarðasölu. Hann veit, að jeg er á móti þjóðjarðasölu yfirleitt, og þá ekki síst þessarar jarðar. Sjálfsagt má segja, að jeg sje ekki mikið kunnugur þar um slóðir, en þó kom jeg þar, er jeg var á ferð í fyrra um Skagaströnd. Jeg fór þangað út að Höfnum með þeim ásetningi að láta ekkert óskoðað, og með mjer var gagnkunnugur maður, sem jeg spurði um alt.

Skoðaði jeg þar og kynti mjer eggverið, selveiðina, silungsveiðina, trjárekann og slægjurnar, svo og aðstöðu um aflaföng og uppsátur, sem jeg sjerstaklega var að kynna mjer. Við athugun alls þessa komst jeg að þeirri niðurstöðu, að þótt seldar væru allar landssjóðseignir, ætti slík eign sem Hafnir aldrei að verða seld, og það gengi glæpi næst að selja hana. Verðið er auðvitað altof lágt, ef til mála gæti komið að selja jörðina. Mjer var sagt, að dúntekjan ein væri um 200 pd. á ári. Víst er um það, að hún hefir komist upp í 240 pd., svo að 200 pd. mun ekki ofhátt áætlað að meðaltali. Selveiðin um 100 á ári. Silungsveiði til mikilla þæginda. Útræði ágætt. Trjáreki talsverður og mikils virði fyrir ábúanda. Þar að auki fylgir jörðin Kaldrani, sem á part í ýmsum gæðum jarðarinnar, svo sem rekanum. Slægjur eru allgóðar nálægt bænum, en ekki miklar, en miklar slægjur uppi á heiði, og vegur þangað ekki slæmur, þótt leiðin sje nokkuð löng. Að öllu samantöldu er þessi jörð ein af bestu kostajörðum þessa lands. Það eina, sem veldur því, að hún getur ekki verið höfðingjasetur, er það, að henni er illa í sveit komið.

Allan sumartímann er þar sæmileg höfn fyrir vjelbáta, jafnvel í norðanátt. Á veturna geta komið þar allmikil brim. Það sá jeg á malarkambi þeim, sem þar hefir myndast. Fyrir utan voginn er klettur, sem jeg ætla að heiti „Stórfiskur“. Mætti þar verða góð sumarhöfn, og ef til vill síldveiðistöð á sumrin.

Að öllu samanlögðu hefi jeg ekki sjeð öllu fallegri og kostameiri eign, og hefi jeg þó sjeð marga góða jarðeign. Jeg efast t. d. um, hvort jeg tæki Laxamýri fram yfir Hafnir, nema þá fyrir það, hve henni er ágætlega í sveit komið.

Húsakynni eru afarstór í Höfnum. T. d. er baðstofan þar einhver hin stærsta, sem jeg hefi sjeð, og mun hún vera að mestu úr rekaviði.

Af öllu þessu, sem jeg hefi hjer talið, verður það að vera mín skoðun, að þótt aldrei nema sjálfsagt væri að selja eitthvað af landseignum, þá ætti ekki að farga Höfnum. Þaðan fær landssjóður miklar tekjur, og sá staður gæti í framtíðinni orðið landssjóði enn meiri tekjulind.