08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í C-deild Alþingistíðinda. (3366)

122. mál, sala á þjóðjörðinni Höfnum

Matthías Ólafsson:

Það er auðvelt að svara ræðu háttv. flm. (Þór. J.). Hvað það snertir, að skoðun mín sje bygð á áliti, þá er það auðvitað, að menn eru sjálfráðir um það, hve mikið þeir telja byggjandi á því, þar sem jeg skoðaði jörðina ekki með það fyrir augum að virða hana eða meta. En hitt veit jeg, að jeg hafði opin augun fyrir kostum jarðarinnar. Sjerstaklega sá jeg, að auðvelt mundi að stunda eggverið, og að það mætti auka að miklum mun, með því að gera hólma í vatninu fyrir neðan bæinn. Þar sem jafnmikill fugl sækir að eins og hjer, mundi hafa verið búið að gera hólmann fyrir löngu síðan, hvar sem væri annarsstaðar. — Þá gat háttv. flm. (Þór. J.) þess, að ilt mundi að gera höfn hjá Höfnum, en höfnin væri aftur á móti góð á Kálfshamarsvík. Jeg skoðaði þetta nokkuð náið, því að jeg fór þangað til að skoða hafnar- og lendingarstaði yfirleitt, og jeg veit það að vísu, að ekki mundi gott að gera stóra höfn þarna úti á nesinu. En dýpi er nóg að norðanverðu við tangahornið, og er enginn vafi á, að þar mætti gera höfn. Jeg á auðvitað ekki við, að þarna sje skipalægi alt árið, heldur að eins að sumrinu, meðan á veiðitíma stendur. Þótt bent sje á, að skip komi á Kálfshamarsvík, en engin að Höfnum, þá er enga ályktun hægt að draga af því, því að að Höfnum er ekkert að sækja. Þar er ekkert nema þessi eini bær, en á Kálfshamarsvík er dálítil verslun, og því oft hægt að fá þar eitthvað af nauðsynjavörum, sem skip getur vanhagað um. Það er satt, að bátar þeir, sem veiði stunda á þessu svæði, liggja við í Kálfshamarsvík. En það er alveg áreiðanlegt, að þar komast ekki að fleiri en 10–12 bátar. Höfnin er þar svo lítil, og engin tök á, að hún verði stækkuð. Auk þess er það enginn vafi, að fiskisæld er miklu meiri hjá Höfnum heldur en hjá Kálfshamarsvík. — Jeg skal ekki fullyrða neitt um slægjurnar. Að vísu var mikið grasár fyrir norðan í fyrra. enda var þá alt vafið í grasi norður frá bænum í Höfnum norður að Kaldrana. Jeg veit ekki fyrir víst, hvað af því landi tilheyrir Höfnum, en landssjóður á þá líka hálfan Kaldrana, svo að auðvelt væri að leggja nokkuð af þeim slægjum undir Hafnir. Þá voru 3 menn við heyskap í Höfnum, og mjer var sagt, að þeir þyrftu ekki að heyja einn bagga uppi á heiðum það sumar.

Þá sagði hv. flm. (Þór. J.), að selveiði væri miklu meiri við Kaldrana. Landssjóður á þá jörð líka hálfa, og hún á að fylgja með í kaupunum. En jeg efast um, að þetta sje alveg rjett, því að jeg gekk með sjónum út með Kerlingarbjargi og sá þar krökt af sel, en norðan við tangann — Kaldranamegin — var varla nokkurn sel að sjá, Þetta getur maðurinn, sem með mjer var, borið vitni um. Það var kunnugur maður, sem háttv. flm. (Þór. J.) þekkir vel og mun ekki hafa neina ástæðu til að rengja. Hann sagði mjer einmitt, að mikil selveiði væri í Höfnum. Um selveiðina á Kaldrana spurði jeg hann ekki, en jeg skildi hann svo, að hún væri lítil sem engin.

Þótt uppsátrið sje nú í Kálfshamarsvík, þá segir það ekkert um það, að sá staður sje betur til þess fallinn. Það mun miklu hafa um ráðið, að þar var mannfleira en í Höfnum. En aukist útvegur þarna á ströndinni, eins og hann getur gert og á að gera, þá verður að leita að nýju uppsátri, og eru þá Hafnir sjálfkjörinn staður til þess. Því að annars væri ekki í annað hús að venda en inn á Skagaströnd, en þaðan yrði ákaflega langt til sókna. En frá Höfnum er betra að sækja sjó en frá nokkurri annari lendingu á nesinu.

Það er alveg áreiðanlegt, að Hafnir eru framtíðareign, og væri misráðið að farga henni úr eign landssjóðs. Þarna er líka svo mikil náttúrufegurð, að menn munu sækja þangað mikið til sumardvalar, þegar vegur er kominn út á nesið. Jeg er ekki á móti því, að málið sje sett í nefnd, því að jeg vona, eða geng út frá, að nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að jörðina eigi ekki að selja.