18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í C-deild Alþingistíðinda. (3370)

122. mál, sala á þjóðjörðinni Höfnum

Þórarinn Jónsson:

Eins og jeg gat um við 1. umr. þá flutti jeg þetta frv. samkvæmt beiðni ábúandans á Höfnum. Ástæðan til þess var sú, að yrði verðið, sem stjórnarráðið setti á jörðina, álitið óhæfilega hátt, þá gat það verið rjett, að þingið tæki fram fyrir hendur stjórnarinnar og seldi jörðina. Því að oft getur það verið, að ekki sje rjett að fara eftir þannig löguðum tilboðum, eins og hjer er um að ræða, og illa forsvaranlegt fyrir stjórnina, án frekari rannsóknar. Það er líka óviðkunnanlegt, að haldið sje þannig lagað uppboð á landssjóðsjörðum, enda sjaldnast eða aldrei til þrifa, því að þeir, sem hæst bjóða, rýra venjulega jarðirnar mest, og eru þar nýmörg dæmi um, að landssjóðsjarðir hafa gengið úr sjer, þegar ábúðin hefir verið þannig boðin upp. Landið á að veita þeim ábúð á jörðinni, sem líklegastir eru til að bæta þær, án tillits til þess, þótt aðrir bjóði hærri leigu. En það allra rjettasta er, að landið selji sem flestar jarðir sínar, því að það er það, sem fyrst og best skapar sjálfstæði í landinu. Það skapar hjá mönnum ábyrgðartilfinningu að fara vel með jarðirnar og hvöt til að rækta landið. Um þessa jörð er það að segja, að hún er ekki kaupandi við þessu verði, en þar sem háttv. landbúnaðarnefnd hefir fallist á, að verðið væri ekki ofhátt sett hjá stjórninni, en hins vegar rjett að selja jörðina, sje jeg ekki, að afskifti þingsins nái lengra og leyfi mjer því að taka frv. aftur.