17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál. Háttv. frsm. (M. G.) vjek að brtt. minni, og vegna hennar stend jeg upp. Jeg skal ekki fara út í þær frekari breytingar á frv., sem jeg hefði talið æskilegar, því að jeg tel það ekki hafa neina þýðingu hjeðan af.

Brtt. mín fer fram á, að gjaldið sje fært úr 5 kr. niður í 4 kr. Mjer þykja 5. kr. nokkuð hátt gjald. Ef til vill má segja, að ekki muni miklu á hverri einstakri tunnu um 1 kr., en »safnast þegar saman kemur«. Jeg get orðið sammála háttv. frsm. (M. G.), að betur færi, að olían yrði svo ódýr í innkaupinu, að landssjóður gæti selt hana við lægra verði til landsmanna en þeir hafa fengið hana áður, og víst hefir fjelagið lagt meira á hana en þetta gjald, sem nefndin leggur til. Samt þykir mjer varlegra, að gjaldið sje ekki sett hærra en 4 kr.

Jeg vildi enn drepa á eitt atriði, sem háttv. frsm. (M. G.) drap á, og það eru skoðanir hans á einkasölustefnunni. Hann gat þess, að nefndinni virtist viðurhlutamikið að ganga inn á þessa braut. Það er auðvitað mest komið undir stjórninni, sem einkasöluna hefir á hendi, hvernig fer. En ef vel og skynsamlega er að farið, getur einkasala vafalaust bæði orðið landssjóði tekjulind og landsmönnum hagur. Margar erlendar þjóðir hafa mikla reynslu í einkasölu. Þær hafa tekið einkasölu á þeim vörutegundum, sem auðvelt er að fara með, og fengið af mikinn tekjuauka. Jeg er heldur alls ekki að halda fram einkasölu á mörgum vörutegundum, heldur þeim, sem ekki er vandfarið með, rýrna lítið og mikið þarf af, eins og t. d. olíu, salti og kolum. Útlendum þjóðum hefir gefist vel einkasala á slíkum vörum, og er það sleifarlagi að kenna, ef ekki gengur vel hjer. Vil jeg nefna t. d. Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland, Rúmeníu, Ástralíu og einstök fylki í Ameríku. Varan hefir jafnan orðið ódýrari almenningi og ríkissjóði tekjulind. En jeg er með frsm. (M. G.) í því, að hjer verði að fara gætilega, taka ekki nema lítið í einu og koma góðum rekspöl á atvinnuveginn.

Jeg vil vona, að menn fallist á brtt. mína, og að sanngjarnt sje að hafa gjaldið ekki hærra.