17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Fjármálaráðherra (B. K.):

Háttv. frsm. (M. G.) hefir gert skýra grein fyrir frv. þessu, og er jeg þakklátur háttv. nefnd fyrir, að hún hefir fallist á það að mestu óbreytt. Um 1. brtt. hefi jeg ekkert að segja, því að hún raskar ekki efni. En í 2. brtt. finst mjer háttv. nefnd hafa farið oflangt. Jeg held, að sú mikla hækkun gjaldsins, sem þar er farið fram á, gæti stofnað mótorbátaútveginum í voða. Jeg er hræddur um, að hann þoli það ekki, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að olían með því gjaldi yrði ódýrari en áður. Er stjórnin var að semja frv. í vetur, þótti henni 10% ofhátt; óttaðist, að það mundi hnekkja þessum öðrum aðalatvinnuvegi, sjávarútveginum.

Vildi jeg því óska, að samkomulag yrði um að færa þetta gjald töluvert niður. Að vísu hefir komið fram brtt. frá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), en hún fer ofskamt. Jeg gæti sætt mig við 10%. Það yrðu ca. 2 kr. af olíufati hverju. Þetta gjald, sem nefndin hefir sett, er afarhátt, og myndar slæmt fordæmi fyrir aðrar verslanir í landinu. Ef landssjóður getur dregið til sín 25%, sem hann hefir lagt á vöru sína, þá mundu aðrar verslanir sjálfsagt nota sjer þá átyllu til að leggja meira á sína vöru, en hingað til hafa þær þó ekki tekið öllu meira af nauðsynjavöru en 5—10%. Landsverslun á einmitt að vera fyrirmynd og landsmönnum ódýrari. Jeg held, að sú sje orsökin til þess, að nefndin setti þetta háa gjald, að það er alment álitið, að steinolíufjelagið hafi selt með svo afarmiklum hag. Jeg efast um, að það sje rjett á litið. Þess verður að gæta, að meiri rýrnun kemur á steinolíu heldur en nokkra aðra vöru. Hana verður að flytja í trjetunnum, og má óhætt gera ráð fyrir 15—20 % álagi fyrir leka. Þess vegna verður að taka það með í reikninginn, meðan olían flyst hjer til lands í trjetunnum, og því virðist gjald þetta ofhátt áætlað.

Menn vita, að nú er hátt verð á steinolíu, og útvegurinn þolir ekki þung gjöld, og ekki víst, að hann þoli þau fyrst um sinn. Vil jeg því ráða nefndinni til að lækka gjaldið nú, en þá má heldur hækka það síðar, ef útvegurinn græðir.

Jeg vil að eins nefna aðrar brtt. nefndarinnar. 3. brtt. er vitanlega til bóta, og var yfirsjón, að ekki var gert ráð fyrir því. Jeg er þakklátur nefndinni fyrir 4. brtt.; orðalagið er þar betra. Helst vildi jeg mælast til, að nefndin tæki aftur 2. brtt. og kæmi með hana í öðru formi.