16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í C-deild Alþingistíðinda. (3416)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Flm. (Matthías Ólafsson):

Þegar síminn var fyrst lagður, þá óttuðust menn, að síminn myndi ekki bera sig fjárhagslega. Nú hefir það sýnt sig, að ekki var ástæða til þessa ótta. Það var vegna þessa ótta, að það var ákveðið, að sveitirnar skyldu bera nokkurn hluta kostnaðarins við símalagninguna. Nú er þessi ástæða fallin burt, og því virðist það sanngjarnt að ljetta af þessari kvöð. Það er auk þess ekki rjettlátt að láta sveitirnar borga fremur til síma heldur en póstafgreiðslustöðva og brjefhirðinga, póstflutnings og starfrækslu pósthúsa. Jeg vænti þess því fastlega, að þótt þessi breyting hafi áður mætt mótspyrnu, þá sjái menn nú, að hjer er ekki farið fram á neina ósanngirni. Auk þessa, sem jeg hefi tekið fram, vildi jeg líka minnast á það, að starfræksla símastöðvanna verður aldrei í lagi fyr en landið hefir algerlega tekið hana í sínar hendur. Menn una aldrei til lengdar þeim kjörum, sem sveitirnar geta boðið.

Jeg vona, að þessu máli verði nú tekið vinsamlega. Mjer verður ef til vill af einhverjum svarað því, að með þessu móti verði starfræksla stöðvanna dýrari. Jeg svara því þannig, að stöðvarstjórar þurfa að lifa, eins og aðrir menn, og jeg sje enga ástæðu til að svelta þá öðrum fremur.

Jeg vona, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.