17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Út af því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði um einkaverslun yfirleitt, verð jeg að segja það, að mjer fanst lítill munur á okkar skoðunum. Jeg sagðist ekki vilja leggja út í einkaverslun á meiru en einni vörutegund nú, heldur sjá, hversu fer með hana.

Svo var það viðvíkjandi 2. brtt. nefndarinnar, sem hefir mætt mótspyrnu, bæði frá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og hæstv. fjármálaráðherra (B. K). Jeg hefi ekki getað talað við nefndina síðan mótmæli þeirra komu fram, og hefi því auðvitað ekkert umboð til að taka brtt. aftur.

Mjer hefir ekki verið sýnt, að steinolíufjelagið hafi ekki lagt meira á olíuna en hinum ráðgerða skakka nemur, og orðrómur hjer um það atriði, er þá ekki rjettur, ef það hefir ekki lagt meira á hana. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) er þar á sama máli. (B. K.: Það er ekki sönnun fyrir hinu.) Jeg veit ekki, hvort hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) hefir tekið eftir því, að brtt. ætlast til, að gjaldið sje einungis greitt af þeirri steinolíu, sem seld er hjer á landi. (B. K.: Olían fer niður í landi.) Auðvitað fer eitthvað niður, en af því borgast ekki skattur eftir till. nefndarinnar. Hvert fat er vigtað um leið og það er selt, og 5 kr. eru greiddar af 150 kg. af steinolíu. En ef á að ákveða gjaldið eftir hundraðstölu, eins og hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) vill, og miða við innkaupskostnað, er líka tekið af því, sem fer niður.

Sem sagt verð jeg að halda fast við till. nefndarinnar, að minsta kosti enn sem komið er. Náttúrlega getur nefndin tekið þetta atriði til nýrrar athugunar. En því get jeg ekki gert lítið úr, að verði till. nefndarinnar samþ., fær landssjóður miklar tekjur.