04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í C-deild Alþingistíðinda. (3430)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Bjarni Jónsson:

Jeg get varla sagt, að hægt sje altaf að ná í skjótu bragði í síma, þótt hann sje innan hreppsins. Jeg hefi sjálfur beðið í 3 klst. á 3. fl. stöð, án þess að ná sambandi. Víða stafar það af því, að símastjórinn er svo gráðugur, að hann lætur hraðtöl, sem greitt er dyrir tvöfalt og þrefalt gjald, ganga fyrir öðrum. Það er einkennilegt, að hrepparnir skuli svo eiga að borga fyrir stöðvar, sem þeir hafa ekki hálf not af. Þann stutta tíma, sem stöðvarnar eru opnar, er ómögulegt að komast að, og á öðrum tímum er þeim ekki gegnt. Ferðamenn, sem koma langt að, og sjómenn, sem ef til vill verða að sæta sjávarföllum til að komast, geta því oft ekki haft not af símanum. Það má gera ofmikið úr þeim hagnaði, sem menn hafa af símanum, og skrítið finst mjer að gera meira úr honum en póstgöngum. Ef annaðhvort ætti að hverfa úr sögunni, yrðu landsmenn víst fljótir að afráða að kjósa heldur að fá að halda póstgöngunum, því að þær verða þó drýgri, þegar öllu er á botninn hvolft. Ef nefndarmennirnir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að rjettlátt sje, að síminn borgi allan rekstrarkostnað, get jeg ekki sjeð, hvers vegna þessu rjettlæti á ekki að verða framgengt. Jeg hefi altaf haldið, að ef eitthvert löggjafarþing sjer, að eitthvað er rjetllátt, þá eigi það að sjá um, að því rjettlæti verði framgengt, þótt það hafi kostnað í för með sjer, því að rjettlætið er sjaldgæfari vara en peningar. Jeg held, að hv. frsm. (Þór. J.) hafi með þessari viðurkenningu sinni lagt með því, að frv. yrði samþykt óbreytt. Það er hárrjett hjá hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að það er í raun og veru enginn sparnaður að láta sveitirnar borga rekstarkostnaðinn, einungis til þess að reyna að láta það líta svo út, að stofnunin beri sig, án þess að hún geri það, ef sveitarstyrkurinn er tekinn af henni. Ef síminn ber sig, er sjálfsagt, að rjettlætinu verði framgengt; ef hann ber sig ekki, er eina rjetta leiðin að hækka gjöldin, eins og hv. þm. Stranda. (M.P.) benti rjettilega á, en ekki að leggja á gjöld út í loftið. Þegar síminn fyrst var lagður, fengu margar sýslur hann án nokkurs endurgjalds, en síðan verða aðrar sýslur að kaupa hann. Best væri að fylgja alveg frv., og endurgreiða meira að segja þau framlög, sem ranglega hafa verið höfð af sumum sýslum. Reyndar er varla hægt að koma því í framkvæmd nú, en viðurkenningu ætti strax að gefa fyrir upphæðinni.