25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í C-deild Alþingistíðinda. (3448)

65. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Mjer þykir engin furða, þótt frv. sje komið í þessa átt, eins og ástæðurnar eru hjá fólkí siðan þetta aðflutningsbann var samþykt 1909. Jeg ætla ekki að álasa þeim, sein vilja skerpa lögin, og ekki heldur hinum, sem eru þeim mótfallnir. Þrætan er orðin svo hörð, að það er stór þörf, að þetta þing geri eitthvað í sumar, helst til að miðla málum.

Lögin eru stórkostlega brotin, og meir en búist var við. Á því þarf að ráða bót, en hana er ekki að finna í frv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), en ef til vill í öðru, sem bráðlega kemur fram. Það er engin hæfa, að bannlögin skuli vera brotin svo mjög, sem raun er á orðin. Jeg var með aðflutningsbanninu 1909, í þeirri von, að ekkert áfengi kæmist inn í landið, en jeg sje, að það kemur inn í landið jafnt og áður. Mjer dettur nú í hug, hvort ekki mætti ná samkomulagi á þessu þingi, þannig, að leyft væri að flytja inn bjór og ljett vín, en banna sterka drykki. Það er enginn efi á því, að mjög margir, sem geta fengið bjór, hugsuðu ekki um að fá sjer brennivín, whisky etc. Sá, sem nú drekkur „kóges“, eða hvað það er kallað, myndi gera sig ánægðan með bjór, portvín, sherry o. s. frv., og algerlega afrækja óæti það. Jeg spyr ykkur, heiðruðu bannvinir, hvort ekki væri rjelt að leyfa þetta og spara heldur dýrt áfengi og óæti.

Þetta frv. er svo háskalega útbúið, að það hlyti að verða bannlögunum til bölvunar, ef það gengi fram. Jeg ætla að spara að minnast á vitleysurnar í þessu frv., en tvær þeirra eru þó svo stórar, að jeg býst við, að þær verði athugaðar af skynsamari mönnum en þeim, sem flytja frv., áður en lýkur.