27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í C-deild Alþingistíðinda. (3450)

65. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Jónsson:

Jeg lít nokkuð öðrum augum á þetta mál en háttv. flm. (J. B.). Jeg held, að það sje misráðið að koma með slík frv. sem þetta. Við vitum, að í þessu máli berast 2 flokkar á banaspjótum, og því meir, sem hert hefir verið á lögunum, því meiri fjelagsskapur hefir verið um þessar sakir, og hefir það því orðið til að auka ágreining.

Flm. þessa frv. játa, að bannlögin sjeu brotin mikið, og ef nú á að fara að herða á sektaákvæðum, lít jeg svo á, að landsmenn muni espast enn meir, og aukast mótþrói þeirra gegn bannlögunum. Jeg held, að það sje óheppilegt að gera þetta mál að miklu deiluatriði. Ef lögunum á að umturna þing eftir þing og gera þau altaf harðúðugri, þá getur það leitt til bardaga við kosningar, og væri það óheppilegt, ef önnur þýðingarmeiri mál en þetta væru á dagskrá. Jeg held, að rjettasta leiðin væri að reyna að koma á sátt og samkomulagi, og vil jeg því leyfa mjer að stinga upp á því við háttv. flm. þessa frv., að þeir vilji nú vinna með okkur, sem á móti bannlögunum erum, og reyna að miðla málum. Það hafa ýmsir andstæðingar bannlaganna, þar á meðal jeg, farið hægt og bítandi og vonað, að bannið sýndi, til hvers það dygði En nú fer að líta svart út, því að þetta frv. er sýnu verra en fyrri frv., og hvar á þetta að enda? Jeg get frætt háttv. flm. (J. B.) á því, að það er von á frv. um að leyfa innflutning á ljettari vínum, og er vonandi, að bannmenn taki því vel. Þá væri rjett að taka stranglega í taumana, ef vínföng yrðu flutt inn í landið óleyfilega eftir sem áður. Það væri því skynsamlegt að fara þessa leið, til að útiloka erjur og deilur. Jeg vil skjóta því til háttv. flm. (J. B.) og bannvina, hvort þessi leið sje ekki heppileg og hvort þeir geti ekki rjett okkur höndina til samkomulags. Jeg hefði helst óskað, að frv. yrði tekið aftur, en ef það fæst ekki og því verður vísað til nefndar, sting jeg upp á, að það verði allsherjarnefnd. Jeg sje ekki ástæðu til að skipa sjerstaka nefnd, því að það mundi vekja nýjar deilur, en jeg vil útiloka alt slíkt.

Sem sagt, frv. í þá átt, sem jeg gat um mun koma, og það er á flm. ábyrgð, ef þeir halda þessu frv. til streitu, þrátt fyrir tilslökun frá okkar hálfu.