27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í C-deild Alþingistíðinda. (3451)

65. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gísli Sveinsson:

Eins og jeg vænti, að háttv. þm. muni, hefi jeg borið fram 2 frv., sem snerta þetta mál, sem sje frv. um skiftingu bæjarfógetaembættisins í Reykjavík og í öðru lagi frv. um, að helmingur sekta fyrir bannlagabrot renni í bæjar- eða sveitarsjóð, en að eins helmingur í landssjóð, í stað allra sekta áður. Þetta var, frá mínu sjónarmiði, það eina, sem hægt er að gera til að sjá, hvort ekki væri við hlítandi bannlögin. Mjer virðast þeir, sem mest fárast um bannlagabrot, vitna ávalt til Reykjavíkur og telja, að hjer kveði mest að þeim og hjer sje mest drukkið. Ef svo er, sje jeg ekki betur en að mikið sje fengið til hagsbóta þessum lögum, ef tollgæsla kemst hjer á, og það svo mikið, að æsingamenn í þessu máli geti ekki með neinni sanngirni krafist meira. Og sje svo, að menn áliti, að sveitarstjórnirnar vilji halda uppi lögunum, eins og bannlögin sjálf gera þeim líka að skyldu, er rjett að herða á þeim, með því að gera þetta að hagsmunamáli fyrir þær.

Í frv. þessu er hert á sektunum. Mjer þykir það ljóst, að þessi lög sjeu nógu ströng, en framkvæmdir vanti. Nú höfum vjer framkvæmdavald, og ef það beitir sjer, verður þessum lögum haldið uppi, eins og hægt er að halda lögum alment uppi. Jeg er á móti sjerstakri lögreglu til verndar þessum lögum, fremur öðrum landslögum; slíkt yrði þá að falla undir sjerstaka eða almenna tollgæslu, en bannlögregla sjerstök yrði svo dýr, að ómögulegt verður undir að rísa. Það mætti þá eins vel rífa niður alla þjóðfjelagsskipun eins og að stofna sjerstaka lögreglu til verndar hverjum lögum, eins mörg lög og eru í þessu landi.

Jeg skal ekkert koma inn á, hversu einkennilegt þetta frv. er að formi til. Það gerir ráð fyrir breytingum á bannlöggjöfinni, en lítt kleift er að sjá, hverju breytt er. Líklega er þó meiningin, að þeim greinum sje breytt, sem í sviga eru settar við byrjun hverrar greinar frv. En þetta er ærið óglögt, og alls ekki í rjettu formi. Einnig er hjer sú óvanalega aðferð höfð, að byrjað er aftan á greinunum og breytt fram eftir — líkt og sagt er að viss „persóna“ lesi vissa bók. Aðalatriðin eru þó þau „princip“, sem ganga í gegnum frv. Frá mínu sjónarmiði eru ákvæði þess sumpart þýðingarlaus, sumpart óþörf og sumpart alveg óhæf. Í fyrsta lagi fer frv. fram á að skerpa refsinguna og hækka sektir. Menn geta nú sagt, að ekkert væri á móti því, ef menn eru þess fullvissir, að sektirnar sjeu of lágar, og háar sektir sjeu nægileg vörn gegn brotum. Mjer virðast sektaákvæðin í lögunum frá 1909, 1913 og 1915 vera nógu há. Þá skoðun styður það, að sektahámarkinu hefir aldrei verið náð í málum út af brotum. Ef til vill hugsa þessir æsingamenn hjer á þingi, að dómarar eigi að dæma menn ávalt í hæstu sekt, en það eru til reglur, sem dómarar fara eftir í því efni. Ef ákveðið sektahámark er aldrei notað, þótt lögin sjeu mikið brotin þarf það að koma fram, hvort menn treysta ekki dómurunum. Mín skoðun er, að sektarhæðin sje ekki aðalspursmálið, heldur hitt, að menn alist upp til að halda lögin og venjast þeim. Þeir, sem gera sjer leik að því að brjóta lögin, gera það eins þótt sektirnar hækki, sjerstaklega ef um mikla hagsmuni er að ræða, eins og flm. (J. B.) var að tala um; þá munar ekki um, hvort það eru 50, 100 eða 200 kr., sem þeir verða að borga. Ef menn á annað borð vilja hafa sig stimplaða sem lögbrjóta, hefir það enga þýðingu, hvort sektin er 50 eða 250 kr. Aðalatriðið er uppeldisatriðið, það að reyna að ná lögbrotainnrætinu úr mönnum, en þetta er ekki vegurinn til að ná því.

Í öðru lagi virðist það vera tilgangur háttv. flm. (J. B.) að sporna við því, að menn drekki allskonar óþverra. Mjer er nú spurn, hvernig í ósköpunum ætla mennirnir sjer að gera þetta? Frá mínu sjónarmiði er það alveg ómögulegt. Þetta liggur alveg fyrir utan bannlögin; með þeim er ekki bannað eða sett ákvæði um, hvað menn mega drekka, heldur hvað flytja má inn af drykkjum. Mönnum er ekki bannað að drekka nokkurn skapaðan hlut, enda er það ekki hægt með lögum að banna mönnum að drekka eða jeta það, sem þeir vilja. Það er ekki hægt að banna mönnum að drekka ólyfjan; þeir verða að vera sjálfráðir, hvort þeir vilja hætta sínu eigin lífi og heilsu. Ef leyfilegt er að selja brensluspiritus og aðra ólyfjan, er ekki hægt að banna mönnum að drekka það. Það eina, sem dugir, er að breyta innræti manna, svo að þeir vilji ekki setja líf og heilsu í veð, með því að drekka ólyfjan sem leiðir til hins versta, ef nokkur brögð eru að.

Enn er það nýtt í þessu frv., að sjerstaka rannsókn á að gera á öllum aðkomandi flutningi í skipum, en það er alveg ógerlegt Hjer á landi er ekki hægt að setja upp til þess sjerstaka lögreglu, nema þá að setja tollgæslu um land alt, enda yrði það ekki dýrara. Að fara að kosta eins miklu til við þessa lögreglu (bannlögreglu) eins og allsherjartollgæslu, sem nú um sinn að minsta kosti er ókleift sökum kostnaðar, nær engri átt. Þá er betra að hafa eftirlitið „generelt“ og rannsaka allar vörur, svo að ekkert sleppi undan tolli og tekjur landssjóðs vaxi við það, en út í þetta er ekki leggjandi, þótt einstaka æsingamaður óski þess.

Enn er hjer eitt ákvæði, sem sje að banna íslenskum skipum að hafa áfengi innanborðs. En þetta mundi að litlu haldi koma. Þótt skip kæmu utanlands frá með áfengi, væri ekki annað en að drekka það upp, áður en skipið kemur í landhelgi. Þetta er víst gert til þess, að áfengi flytjist ekki í land, en það er nú bannað hvort sem er, og er því þetta ákvæði næsta óþarft, og það nær að eins til íslensku skipanna. Jeg var ekki á þingi, er þessi undanþága kom til tals í lögunum, og veit ekki vel, hvernig á því stóð, að íslensku skipin fengu rjett til að hafa áfengi um borð, en býst við, að það hafi verið af því, að rjett hafi þótt að gera þau ekki ver sett en önnur farþegaskip hjer við land, og veit jeg ekki betur en að bannmenn á þingi hafi verið með því. Við ættum ekki að gera okkur leik að því að setja íslensku skipin aftar en önnur. Það má segja, að þessi breyting sje ekki þýðingarmikil, einkum þegar þau mega hafa áfengi alveg upp að landsteinum, sem enginn getur bannað. Mjer virðist það líka þýðingarlítið að rekast í þessu þing eftir þing.

Þá er enn eitt atriði, sem hv. flm. (J. B.) sýnilega telur eitt höfuðatriðið í frv. og það er ákvæðið um það, að nú skuli taka það vín af mönnum, sem þeir samkvæmt lögum mega eiga til eigin afnota. Það má efalaust gera ráð fyrir því, að flutnm. ætlist til, að nákvæm rannsókn fari fram í húsum þeirra manna, sem hafa gefið upp, að þeir ættu vínföng, svo að ekki sje mögulegt, að neinu sje skotið undan, en hinu er varla treystandi, að menn segi rjett til um birgðir sínar, undir þeim kringumstæðum.

Um þetta atriði er nú það að segja, að þar sem það er áður lögleyft af þinginu, að menn megi eiga vín, þá er það ekki einungis leyfilegt, heldur er ekki hægt að taka það vín af mönnum, sem þeir eiga nú, og þetta alt meira að segja samkvæmt stjórnarskránni.

Mjer er ekki kunnugt um, að til sjeu nema tvær leiðir til þess að taka af mönnum eignir þeirra, og þessar leiðir eru eignarnám (eða „expropiation“), og má því að eins viðhafa hana, að almenningsheill eða fjelagsheill krefjist þess. Heldur nú nokkur maður, að hægt sje að sanna það, að almenningsheill krefjist þess, að vín sje tekið af mönnum, segjum örfáar flöskur hjá hverjum, sem ekkert hafa gert fyrir sjer annað en að eiga það lögum samkvæmt? Það myndi enginn dómstóll líta svo á.

Hin leiðin til að taka eignir manna er upptaka („confiskation“), og kemur hún því að eins til greina, að viðkomandi hafi orðið brotlegur við lög. Til þess því að gera vínið upptækt yrði að gera aðila þá, sem taka átti af, að sekum mönnum. Þetta ákvæði er því, frá mínu sjónarmiði, hin mesta óhæfa. Jeg býst við því, að þetta ákvæði sje komið inn í frv. af því, að hv. flm. (J. B.) hafi ekki haft sjer til ráðuneytis neinn mann, sem væri nægilega lögfróður eða hygginn, til þess að varast svona ákvæði, sem ekkert þing getur samþykt, m. a. af því, að það væri stjórnarskrárbrot.

Þá vildi jeg enn minnast á eitt ákvæði, sem kemur fyrir í frv. og er um það, að refsa skuli þeim mönnum, sem sjást ölvaðir á almannafæri. Þetta ákvæði fer einnig algerlega út fyrir grundvöll hinna núgildandi bannlaga, því að samkvæmt þeim eru þeir menn einir refsiverðir, sem hafa fengið áfengi ólöglega, en hinu er ekki gert ráð fyrir, að þeir menn sjeu sekir, sem drukkið hafa sig ölvaða í löglega fengnu áfengi. Það getur verið spursmál út af fyrir sig, hvort slíkt ákvæði sem þetta skuli leitt í lög, en víst er, að það á ekki heima fremur í bannlögunum. Annars er þessi grein óbærilega orðuð. Það er nefnilega gert ráð fyrir því, að sekta skuli þá menn, sem „sjást“ ölvaðir. Hverjir það eru, sem eiga að dæma um það, hvort maðurinn sje ölvaður eða ekki, frá því er ekki sagt. Líklega er það „bannlögreglan“ þeirra. Það þarf þá eflaust að skoða manninn, og yrði þá fullerfitt að dæma um, hvað teljast ætti „ölvaður“ og hvað ekki. Það þyrfti að minsta kosti nánari ákvæði um þetta efni. Helst ætti að ákveða eitthvað annað um þetta, t. d. að maðurinn þurfi að hafa brotið gegn almennu velsæmi, eða haft í frammi einhverjar óspektir, til þess að hann geti talist sekur. Þannig getur orðið vit í því, og þá er það að eins lögreglumál, og þannig er spursmálið líka tekið í löggjöfum landanna.

Þá er enn eitt, sem jeg vildi geta um, og það eru þessi nýstárlega refsiákvæði sum, sem frv. hefir að geyma. Það er nefnilega svo ákveðið í frv., að fyrir sama brotið skuli hinn seki sæta tvöfaldri hegningu, fyrst fangelsi og síðan eða að auki sektum. Þetta ákvæði er alveg nýtt í íslenskri löggjöf og um Norðurlönd öll, og hefir ekkert líkt þekst hjer, síðan úr lögum fjell, að sökudólga skyldi fyrst hengja og síðan lima sundur. Samskonar refsingu á nú að beita við læknana t. d., eftir þessu frv. Fyrst á að sekta þá um stórfje og síðan reka þá frá embætti, eða reka þá frá embætti og sekta þá líka. Þetta tel jeg mjög varhugaverð refsiákvæði.

Yfir höfuð get jeg lýst yfir því, að jeg tel mjög illa farið, að frv. þetta er fram komið, því að það hlýtur að auka mikið glundroðann í bannmálinu, sem áður var orðinn nógu mikill; sömuleiðis mun það koma af stað æsingum um málið, og er þó varla á bætandi. Það mun espa menn á báðar hliðar og gera lögin um skör fram óvinsæl.

Við verðum að una við bannlögin, eins og þau eru nú, reyna heldur að herða á eftirlitinu með því, að lögunum sje hlýtt, en svona æsingafrv. hlýtur að vekja óhug um alt land, og því segi eg: Hingað og ekki lengra!