27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í C-deild Alþingistíðinda. (3452)

65. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get virt það við hv. 1. þm. N.-M. (J. J.), hvað hann talaði stillilega, og sje jeg því ekki þörf á að fara langt út í hans ræðu. Það var eðlilegt, að hann kæmi með athugasemdir við frv. okkar, því að það er vitanlegt um hann, að hann stendur og hefir altaf staðið á öndverðum meið við bannmenn. Það má vel vera, að mönnum finnist það hart, að þeim skuli gert enn örðugra fyrir en áður hefir verið með að neyta þessarar bannvöru, en þeir hljóta að geta skilið það, að okkur er þetta mál hjartans mál, því að við erum sannfærðir um það, að lögin eru góð. Hitt er satt, að við viljum ekki ófrið um bannmálið. Við erum mjög fúsir til samkomulags en eigi samkomulagið að vera það, sem hann nefndi, að leyfa innflutning á veikari vínum, þá vona jeg, að hann skilji það, að slíkt er ekkert samkomulag; það væri undanhald frá okkar hendi, sem aldrei getur orðið; þá verðum við heldur að deila. Jeg skal játa það, að við mundum geta gengið inn á þetta, ef við værum vissir um, að það yrði ekki misbrúkað, en við vitum með vissu, að ef leyfður yrði innflutningur á veikari vínum, þá yrði um leið gert erfitt eða ómögulegt eftirlit með hinum sterkari. Hann (J.J.), meira að segja, reif sjálfur niður þessa leið sína með ummælum sínum. Hann hlýtur því að sjá að það getur ekki verið um það að tala, að það náist samkomulag við okkur um þessa leið.

Jeg hafði stungið upp á því, að sjerstök nefnd yrði kosin til að fjalla um málið, en nú gerir hann að tillögu sinni, að því sje vísað til allsherjarn. Jeg get ekki fallið frá tillögu minni, þótt jeg hins vegar hafi ekkert á móti því, að málinu sje vísað til allsherjarnefndar.

Jeg skal þá víkja nokkrum orðum að sumu, sem hinn hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði.

Hann byrjaði með því að tjá sig fylgjandi bannlögunum, en jeg verð að segja það, að ræða hans bar vott um alt annað.

Hann sagði, að frv. væri sýnilega fram komið frá æsingamönnum í bannmálinu. Jeg get nú sagt bæði um mig og meðflutningsmenn mína, að við erum engir æsingamenn, svo að þessi sleggjudómur hans er með öllu ástæðulaus. Hann getur ekki heldur fundið neitt í framkomu okkar í þessu máli, sem beri vott um æsingu. Hitt mætti fremur segja, að ræða hans bæri vott um æsingu gegn þessu máli. Hún sýndi það að minsta kosti ótvírætt, að honum var órótt í skapi, og get jeg þó ekki sjeð, að nokkuð sje það í frv., sem þyrfti að gera honum, sem þykist vera bannmaður, órótt í skapi. Þótt margt sje nýmæli í frv., þá þurfti það ekki að gera neinum gramt í geði, sem vill af einlægni stuðla að því, að lögin verði síður brotin en áður, því að að því stuðla nýmælin öll. Annars benti ræða hans (G.Sv.)ekki á, að honum væri bannmálið mikið alvörumál, eins og hann lætur. Jeg segi ekki, að það vaki fyrir þingmanninum að eyðileggja bannlögin, þótt benda mætti á sumt í ræðu hans, sem skilja mætti á þann hátt. Annars vildi jeg biðja hv. þm. (G. Sv) að líta dálítið rólegar á málið með mjer um stund og vita, hvort honum getur ekki runnið reiðin.

Hv. þm. (G. Sv.) sagði, að lögin væru áður nægilega ströng. Þetta er ekki rjett. Það mætti ef til vill segja, að lögin sjálf sjeu nógu ströng, ef þeim væri framfylgt rækilega, og þó eru í lögunum ákvæði, sem eru altof væg, t. d. hegningarákvæðin við þá menn, sem gera sjer það að atvinnu að selja nautnasjúkum sálum bannaða vöru. Jeg hygg, að það væri rjett að taka sem harðast á slíkum mönnum. Fyrst og fremst er nú sú sala á móti lögum, og auk þess taka þeir venjulega slíkt geipiverð fyrir vínið, að það má telja okur. Jeg vona nú, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sjái, að rjett er að taka hart á slíkum mönnum, því að þeir bæði brjóta landslögin og beita líka mannúðarleysi.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að hjer væri farið fram á sjerstaka tollgæslu vegna bannlaganna. Þetta er ekki rjett. Við viljum einungis herða eftirlitið svo vel, sem hægt er, án aukinnar tollgæslu, svo að það er óþarfi af honum að blanda tollgæslunni inn í umræðurnar.

Þá sagði hv. þm (G. Sv.), að sumar breytingarnar væru óþarfar. Jeg sje ekki, að ástæða sje til fyrir hann að spinna langar umræður út af þeim breytingum, sem eru óþarfar og gera hvorki til nje frá. Sumar breytingarnar sagði hann að næðu ekki tilgangi sínum. Ekki getur honum verið mikill miski að þeim, og væri því gott að lengja ekki mikið umræðurnar um þær.

Þá sagði hv. þm. (G. Sv.) að sumar breytingarnar væru óhæfa. Eftir ræðu hans að dæma býst jeg við, að hann hafi með því átt við hækkun sektanna og embættismissi lækna. Það er að vísu satt, að ákvæðin eru nokkuð ströng, en jeg sje enga ástæðu til þess að vægja til við þessa menn, sem brjóta svo herfilega lög landsins, að þeir vinna til þeirrar refsingar, sem lög þessi ákveða, og er þm. (G. Sv.) ekki öðru til þessa að svara en að „með illu skal ilt út reka“. Ef þeir geta ekki látið það vera að brjóta lögin, þá er líka rjett að þyngja refsinguna. Jeg veit það, að hv. þm. (G. Sv.) er svo sanngjarn, að hann vill láta leggja harða refsingu við stóru broti, en hitt er auðvitað, að ekki er beitt hæstu sekt nema um stórt brot sje að ræða, en auðvitað verður það að vera á valdi lögreglustjóra að ákveða sektahæðina.

Þá mintist hv. þm. (G. Sv.) á vínið á skipunum íslensku. Jeg get ekki sjeð neina ástæðu til þess að láta þau skip fara með bannvöru, þar sem við náum til, eða í landhelgi hjer við land. Mjer finst það vera mjög óviðfeldið, að skipin sem eru eign landsmanna, megi hafa vín í landhelgi til neyslu, en íbúar landsins megi ekki neyta þess. Mjer virðist blátt áfram ekkert vit í slíkri tilhögun. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að við mættum ekki gera íslensku skipunum erfiðara fyrir en nauðsynlegt væri, í samkepninni við útlendu skipin. Það þykjumst við ekki gera. Jeg veit til þess, að talað hefir verið við menn úr stjórn Eimskipafjelags Íslands. Þeir telja ekki neinn erfiðisauka að þessari ráðstöfun, annan en þann, að erfiðara mundi að fá matsvein. Jeg segi nú fyrir mig, að jeg teldi það ekki frágangssök, að landssjóður hlypi þá undir baggann og borgaði hallann, eða það, sem brytinn kostaði meira en áður. Þótt jeg vilji ekki fortaka, að einstaka menn vilji síður ferðast með þeim skipum, sem hafa ekki vín innanborðs, þá er jeg þess fullviss, að slíkt yrði ekki alment.

Hv. þm. (G. Sv.) sagði, að það væri aðalatriðið fyrir okkur flm. að taka vínið af þeim mönnum, sem hefðu leyfi til að eiga það, samkvæmt núgildandi lögum. Þetta er ekki rjett. Það er ekkert aðalatriði fyrir okkur, enda held jeg, að það vín, sem flutt hefir verið hingað fyrir árið 1911, muni vera farið að skemmast, sumar tegundirnar að minsta kosti, og ekki er ólíklegt, að þær birgðir sjeu nú farnar að minka. Það er ekki meining okkar flm. þessa frv. að gera þeim fjárhagslegt tjón. Eins og sjá má leggjum við það til, að þeim sje borgað fyrir þær vinbirgðir, sem verða gerðar upptækar, ef þeir kjósa það. Viðvíkjandi því, að þetta snerli mikið sjálfræði manna, er því nú fyrst og fremst að svara, að það kemur þeim einum við, en snertir ekki aðra, en auk þess má geta þess, að ýms lög og lagasetningar leggja meiri og minni höft á persónufrelsi manna.

Viðvíkjandi því, er sami þm. (G.Sv.) drap á, að það myndi tæpast samkvæmt stjórnarskránni að gera áfengisbirgðir einstakra manna upptækar, geri jeg eigi ráð fyrir, að einstakir menn hafi svo miklar áfengisbirgðir, að almenningsheill sje hætta búin af því, en ef svo væri, að sumir þeirra ættu til margra ára, er jeg ekki með öllu viss um, hvort það er almenningi með öllu óskaðlegt.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) kvað auðsjeð, að við hefðum ekki ráðfært okkur við hygna (vitra) menn eða lögfræðinga Við höfum samt einmitt ráðfært okkur við lögfræðing, og það mann með góðu prófi. Þetta er ekki í fyrsta sinni, sem lögfræðingana greinir á. En auk þessa lögfræðings hafa nokkrir menn unnið að þessum breytingum. Viðvíkjandi því, hvort þeir sjeu vitsmunamenn, skal jeg fátt segja. Mjer er lítið um það gefið að dæma um vitsmuni manna. Það get jeg þó sagt, að það er almenningsálit þeirra, er til þekkja, að þessir menn sjeu sæmilega greindir og góðum mannkostum gæddir. Þm. (G. Sv.) gat því sparað sjer þessar hnútur.

Háttv. þm. (G. Sv.) taldi það nýtt, að bæði sektir og fangelsi væri lagt við lögbrotum. Má vera, að það það sje nýtt í íslenskum lögum, en í erlendri löggjöf er það ekki óvenjulegt. Þetta ákvæði er og að eins haft um menn, sem brjóta lögin til að afla sjer fjár. Sektirnar svara til gróðans, sem aflaður er á þennan hátt, en fangelsið svarar til lögbrotsins. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) kvað þessar breytingar líklegar til að vekja æsingar. Jeg veit, eigi hve órótt andstæðingum okkar er, en það veit jeg, að sjálfsagt er að gera alt til að girða fyrir, að lögin verði brotin. En breytingin kemur þar harðast við, sem lögbrotin bera vott um mesta frekju. Jafnvel andbanningar, sem jeg hefi átt tal við, hafa líka viðurkent, að sjálfsagt sje að hegna þeim, sem gera sjer að gróðavegi að brjóta lögin, á þann hátt, sem ætlast er til í frv.

Að sinni ætla jeg ekki að drepa á fleiri atriði, þótt ýmsu sje enn að svara.