27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í C-deild Alþingistíðinda. (3455)

65. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson:

Jeg vil ekki lengja umræðurnar, vildi að eins gefa væntanlegri nefnd nokkrar bendingar.

Jeg hjó eftir því í ræðu hv. flm. (J. B.), að eitt af því, sem hafi komið honum til að flytja frv., hafi verið það, að í bannlögin vanti ýms ákvæði, er geri lögreglustjórum mögulegt að framfylgja þeim. Jeg veit ekki, hver af þessum ákvæðum, sem eru í frv. því, er hann nú flytur, eiga að bæta úr þessu. En því vil jeg skjóta til nefndarinnar, að ekki er úr vegi að athuga, hvaða ákvæði vanti til þess, að hægt sje að framfylgja lögunum. Rjettast væri, að nefndin leitaði upplýsinga um það hjá lögreglustjórum. Í þessu sambandi skal jeg geta þess, að einu sinni kom það til tals í Noregi að koma á banni þar. Nefnd var skipuð til að rannsaka málið. M. a. sendi hún fyrirspurnir til lögreglustjóra um landið alt, um hvaða útlit væri til, að hægt væri að framfylgja slíkum lögum. Álit þessarar nefndar mun hafa komið út á sínum tíma, og væri æskilegt, að nefnd sú, sem þetta mál verður vísað til, kynti sjer það. Þar munu vera bendingar um, hvernig lögreglustjórar í öðrum löndum líta á þetta mál.

Annars hefir flest verið tekið fram. Ætla jeg ekki að tala sjerstaklega um málið að þessu sinni. Að eins vil jeg geta þess, að mjer finst undarlegt að vilja kjósa sjerstaka nefnd í þetta mál, þar sem þegar er búið að vísa frumvarpi um breytingu á þessum lögum, bannlögunum, til allsherjarnefndar. Mjer finst hjákátlegt að vísa þessum breytingartillögum til annarar nefndar. Býst jeg við, að þótt það sje ekki móti þingsköpum, sje það þó móti tilgangi þingskapa. Annars er mjer að mestu sama.