08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í C-deild Alþingistíðinda. (3460)

81. mál, varnarþing í einkamálum

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get verið stuttorður, því að frv. er stutt, en nefndarálitið allítarlegt. — Jeg skal taka það fram, að þótt svo geti litið út, sem breytingin verði einkum í hag stefnanda, þá er ekki svo, og skal því til stuðnings bent á, að verði frv. þetta að lögum, sparast mikill kostnaður af ferðum dómara, og er auðsætt, að slíkt getur eins vel komið stefndum að góðu, því að ganga virðist mega út frá því, að málskostnaður falli eigi sjaldnar á stefnandann en stefndan.

Breyting sú, sem nefndin stingur upp á að gerð sje við frv. þetta, er í því fólgin, að mál þau, sem rekin eru samkvæmt lögum þessum utan dómþinghár stefnds, sjeu jafnan rekin sem gestarjettarmál. Þótti nefndinni eigi næg ástæða til að hafa mismunandi málsmeðferð eftir því, hvort báðir aðiljar eru búsettir í sömu dómþinghá eða ekki. Þegar svo er ástatt, að báðir aðiljar eru búsettir í sömu þinghá, þykir þó sjálfsagt, að sáttaumleitun fari fram fyrir sáttanefnd, áður en málinu er stefnt í dóm.