18.08.1917
Efri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í C-deild Alþingistíðinda. (3466)

81. mál, varnarþing í einkamálum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Hvort sem þetta mál hefir komist í gegnum hv. Nd. fyrir sjerstök slys eða eigi, þá álít jeg, að það sje vel komið, ef það fer í hendur hinnar athugulu og tillögugóðu allsherjarnefndar þessarar hv. deildar. Enda mun fullrar aðgæslu þurfa við, áður en vikið verður frá margra alda venju, eins og hjer er farið fram á. Ef þetta nær fram að ganga, þá getur það orðið til þess, að einstakir menn verði að kosta til margra daga ferðalaga, þangað sem málið er rekið. T. d. gæti það komið fyrir, að menn yrðu að fara í slíkum erindum alla leið frá Langanesi til Húsavíkur, svo að jeg nefni dæmi þar, sem jeg er kunnugastur. Jeg þykist þess fullviss, að hægt muni vera að ljetta undir með dómstjórunum á annan hátt, því að fyrir þá mun þetta aðallega gert. Benda mætti t. d. á það fyrirkomulag, sem tíðkast í útlöndum, er dómarar fara um dómhjeruð sín á vissum tímum og taka þá þau mál fyrir, sem fyrir liggja. En yfirleitt þykir mjer víst, að allmikil óánægja muni hljótast af frv. úti um land, ef það nær fram að ganga.