08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í C-deild Alþingistíðinda. (3470)

121. mál, prestsmata

Flm. (Stefán Stefánsson); Við flm. höfum leyft okkur að bera fram þetta frv. af þeirri ástæðu, að okkur finst prestsmatan óeðlileg kvöð og viljum, að sú breyting komist á, að eigendur bændakirkna, -eða jarða, er prestsmatan hvílir á, sje gefinn kostur á að leysa sig undan prestsmötunni. Þetta frv. er að mestu leyti sniðið eftir lögum um sölu á þjóðkirkjujörðum, og er einn aðalþáttur þess sá, að verðið á prestsmötunni sje miðað við það, að verðhæðin með 41/2% vöxtum veiti sömu vaxtaupphæð og hið árlega prestsmötugjald hefir numið eftir verðlagsskrá síðastliðin 10 ár. Þetta höfum við álitið hæfilegt til að byggja á, því að við hyggjum, að hinu opinbera muni vera vel mögulegt að koma andvirði prestsmötunnar á 41/2% vöxtu. Okkur flutningsmönnum er það vel kunnugt, að gjald þetta er mjög þung kvöð á þeim einstöku mönnum, er hjer eiga hlut að, og það því fremur sem það er ákveðið, í það minsta þar, sem jeg þekki til að gjaldið skuli greitt í smjöri, enda hefir þess verið mjög óskað af þeim, sem undir þessari óeðlilegu kvöð hafa orðið að búa, að þeim yrði gert mögulegt að leysa sig undan henni. Jeg hefi verið beðinn um það nokkrum sinnum áður að fá þessu breytt, og hefi leitað fyrir mjer með það hjer á þingi, en ekki fengið neinni breytingu fram komið. T. d. á þinginu 1911, þegar afnám Maríu- og Pjeturslamba var leitt í lög, flutti jeg, ásamt núverandi hæstv. forseta Nd., breytingar eða viðaukatillögu við frv. um sölu prestsmötunnar, sem þá var feld, þótt undarlegt væri, því að jafnvel hefði það verið eðlilegast, að heimild til sölunnar hefði verið veitt, eða látin fylgja með, þegar lögin um sölu kirkjujarða voru samþ. 1907, því að mjer finst engu síður rjettmætt, að prestsmatan sje seld, heldur en þjóðkirkjujarðirnar. Og þegar á það er litið, að prestsmötugjaldinu hefir upphaflega verið þannig háttað, að kirkjueigendur hafa með því verið að leysa sig undan þeirri kvöð að halda sjerstakan heimilisprest, þá sjá allir, hve hjáleitt það er, að gjald þetta skuli enn þá eiga sjer stað. Og fullkomlega eðlilegt og tími til kominn, að heimild sje gefin til að afnema það, eða fá sig leystan undan þessu hvimleiða gjaldi. Það mætti nefna dæmi, sem er hliðstætt þessu, nefnilega lambsfóðursgjaldið, sem nú er búið að afnema, og því þá ekki að breyta einnig til hjer? Málinu til stuðnings má líka taka það fram, að bændur eiga afskaplega óhægt með að svara þessu smjörgjaldi, og það fyrir þá sök, að fráfærur eru allvíðast lagðar niður. Það getur að vísu verið, að menn hafi sumstaðar fengið óátalið að gjalda eftir verðlagsskrá, eða í öðru en smjöri, en það mun ekki nærri alstaðar, að önnur borgun sje vel þegin. Það má vel vera, að stjórnin hafi selt eitthvað af prestsmötum, en jeg get ekki sjeð, að neitt sje á móti því, að heimild sje gefin til þess með lögum, svo að stjórnin hafi föst ákvæði að fara eftir.