08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í C-deild Alþingistíðinda. (3471)

121. mál, prestsmata

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki annað sagt en að mjer finst þetta frumv. vera óþarft, því að jeg hefi altaf álitið, að stjórnin hefði fulla heimild til að selja prestsmötu, og hún hefir líka gert það. Jeg skal að vísu ekki neita því, að það kann að hafa verið hik á því um stund, meðan þingið var ekki búið að ákveða sölu á kirkjujörðum og þjóðjörðum, en úr því að henni er haldið áfram, þá sje jeg enga ástæðu til að halda í prestsmötuna, og eftir því, hvernig hv. deild skildi við það mál, mætti ætla, að hún liti svo á, sem aðalatriðið væri að selja sem mest, og sem allra ódýrast að unt væri.

Þessi andi kemur og fram í þessu frv., því að hjer er lagt til, að miðað sje við 4½%, þegar prestsmata er seld, en áður hefir verið miðað við 4% vöxtu, en það hlýtur, eins og allir sjá, að verða til skaða fyrir landssjóð, en til hagnaðar fyrir þann, sem leysist undan prestsmötu, og það finst mjer ekki rjettmætt.

Annað sje jeg ekki að sje í þessu frv., og þar sem jeg hefi altaf álitið stjórnina hafa heimild til að selja prestsmötu, þá finn jeg ekki ástæðu til þess að gera það kunnugt með lagafrv.