08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í C-deild Alþingistíðinda. (3473)

121. mál, prestsmata

Pjetur Jónsson:

Jeg vil fyrir mitt leyti mæla með því, að rýmkað sje um þau kjör, sem þeir hafa átt við að búa, er hafa viljað leysa sig undan prestsmötugjaldi. En jeg er sammála hæstv. forsætisráðherra um, að til þess þurfi engin lög, og það síst eins ítarlegt frv. og hjer er komið fram. Mjer hefir verið kunnugt um það, að mönnum hefir verið mögulegt að kaupa af sjer greiðslu prestsmötu, með því að borga 25-falda upphæð gjaldsins, eftir meðaltali þess 10 síðustu árin. En, eins og nú er komið, er þetta altof hátt, þegar miðað er við það, að rentufótur hefir stigið mikið síðastliðin ár (5%), svo að nú mun enginn fá lægri rentukjör en 5%, móts við 4% áður. Get jeg ekki talið það mikinn skaða fyrir landssjóð, þótt miðað væri við 5% rentufót og prestmötukvöðin seld fyrir 20-falda gialdhæðina. Landssjóði mun altaf í lófa lagið að fá 4½% fyrir sitt fje. Mjer þykir hjer því ofskamt farið.