08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í C-deild Alþingistíðinda. (3474)

121. mál, prestsmata

Flm. (Stefán Stefánsson):

Mjer þykir vænt um að heyra, að menn virðast sammála um það að vilja rýmka kjör þeirra manna, sem eru háðir prestsmötugjaldinu. En það þykir mjer því undarlegra, að þeir skuli vera því mótfallnir, að salan fari fram eftir gildandi lagaákvæðum, því að það virðist mjer þó eðlilegasta leiðin. Það gladdi mig enn fremur að heyra það hjá háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), að hann vildi fara enn lengra en við flutnm. treystum okkur til, eða álitum að mundi fá fylgi, jafnvel hækka upp í 5%, eða selja mötuna 20-faldri gjaldhæðinni, en því er þar til að svara, að við fengum þær upplýsingar, að landssjóður gæti ekki ávaxtað þetta fje hærra en 4½%, og þótti okkur því ráðlegt að miða söluna við það. Hæstv. forsætisráðherra lýsti yfir því, að hann áliti, að stjórnin hefði fulla heimild til að selja prestsmöturnar, e.n því má þá ekki eins slá þessu föstu með lögum? Jeg fæ ekki sjeð, að stjórninni geti verið það neitt ókærara að hafa gildandi reglu að fara eftir, og þar af leiðandi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu frá hennar hálfu, að þetta frv. næði fram að ganga. Einnig gat hæstv. forsætisráðherra þess, að ákvæðin um söluna væru í óhag kirkjusjóðnum, og má vera, að svo sje, ef miðað er við 4%, en aftur á móti væri það rangt gagnvart þeim, sem fá að leysa sig undan prestsmötunni, ef miðað væri við lægri vöxtu en 4½%, eins og frv. gerir ráð fyrir, þar sem það er víst, að sjóðurinn fær þá vexti af fje sínu. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta, en vil leggja það til, að málið fái fram að ganga, í líku formi og frv. sýnir, og að því, að lokinni umr., verði vísað til allsherjarnefndar.