08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í C-deild Alþingistíðinda. (3476)

121. mál, prestsmata

Pjetur Jónsson:

Jeg skal ekki vera langorður. Jeg er sammála hæstv. forsætisráðherra í því, að mjer finst þetta frv. ekki nauðsynlegt, og sje jeg ekki neitt til fyrirstöðu, að efni þess gæti alveg eins komið fram í þingsályktunarformi. Það er þegar komin föst venja um það, hvernig hægt sje að leysa sig undan þessu prestsmötugjaldi; að eins mættu kjörin vera aðgengilegri. Hafi fyrir 20 árum verið hægt að kaupa af sjer prestmötuna, með því að borga 25-falt gjaldið, þá ætti það að vera sanngj. nú með að eins 20-faldri gjaldhæðinni. Jeg er hv. flm. (St. St.) algerlega sammála um, að gjald þetta sje í alla staði hvimleitt, því að þegar það er heimtað í smjöri, eins og venja er, þá kemur það oft mjög órjett niður á mörfnum. Smjör, sem bæði er illa verkað og slæmt, er þá tekið jöfnum höndum og ágætissmjör frá fyrirmyndarheimilum, sem auðvitað væri í miklu hærra verði á markaðinum. Þó að sumum kunni að finnast, að hjer sje verið að hliðra til fyrir þá, sem vilja kaupa af sjer þessa kvöð, þá er þar til að svara því, að hjer er um afarsmávægilega ívilnun að ræða, en aftur á móti hefir löggjaf. árvaldið áður veitt uppgjöf t. d. á Maríu- og Pjeturslambafóðrunum, og það án endurgjalds.