20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Matthías Ólafsson:

Jeg get ekki sjeð, hve mikill munur er á þessari brtt. og 2. gr., eins og hún er nú. Í lögunum stendur, að enginn megi flytja steinolíu hingað til lands eftir að stjórnin hafi tekið aðflutningana að sjer, nema með sjerstöku leyfi hennar, en í brtt. stendur það sama, en frá þeim tíma, að lögin verði staðfest.

Það er gert ráð fyrir, að það líði einhver tími frá því, að lögin verða staðfest og þangað til stjórnin hafi tekið að sjer flutningana, en samkvæmt brtt. á enginn tími að vera á milli. En þetta má ekki vera svo, því að þá gætum vjer átt á hættu, að farmur, sem væri á leið til landsins þegar lögin væru staðfest, yrði sendur eitthvað annað.

Aðaltill. á þgskj. 106 er svona meinlaus og vonandi gagnslaus, því að hún segir ekkert annað en að selja skuli olíuna fyrir það, er svari innkaupsverði og kostnaði. Með öðrum orðum, tillögumaður hefir hugsað sjer að leggja það til, að landssjóður hafi alls ekkert upp úr olíusölunni; en jeg hygg, að allir, sem eru með einokun, hugsi sjer, að þeir þurfi ekki að borga hærra verð en áður, en hins vegar reiknist landssjóði nokkuð af þeim ágóða, sem kaupmenn hafa haft.

Jeg veit, að þetta gjald kemur harðast niður á sjávarútveginum, og jeg er sannfærður um, að það er ofhátt, en eins og málið horfir nú við eru allar líkur til, að það verði samþykt. Eins og jeg hefi áður tekið fram þá álít jeg, að 5 kr. gjaldið, sem fyrst var stungið upp á, sje ofhátt, og jeg er einnig á því, að 4 kr. gjaldið sje líka ofhátt. Jeg get fallist á það, sem einnig hefir verið stungið upp á, að gjaldið sje 2 kr.

Þá er síðasta brtt. á þgskj. 106. Mjer virðist það búið að sýna sig, að það sje afarvarasamt að hindra einstaka menn í því að útvega nauðsynjavörur til landsins, og að því er olíuna snertir, þá liggur það í hlutarins eðli, að enginn fer að gera það til þess að eiga það á hættu, að olían verði tekin af honum og stjórnin ráðstafi henni. Þetta liggur svo í augum uppi, að ekki þarf að fara mörgum orðum um það. Það getur einnig borið við, á hvaða tíma sem er, að stjórnin eigi von á skipi frá Ameríku, þegar hún álítur öllu óhætt, og það getur þá einmitt farist, en annað skip, sem einstakur maður á, komist heilu og höldnu, og ætti það þá að geta bjargað í svip, því að vitanlega er betra að fá dýra steinolíu heldur en alls enga.