20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Fjárhagsnefndin hefir athugað brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og ekki getað fallist á neina þeirra; hann hefir borið fram fyrstu brtt. sína við 2. gr. í þeim tilgangi, að stjórnin geti altaf haft hönd í bagga með því og vitað um, hve mikið er flutt til landsins af steinolíu, og álítur hann betur trygt með því móti, að nóg verði af henni í landinu, en nefndin álítur, þvert á móti, að þegar einhver maður hafi fengið leyfi til að flytja inn svo og svo mikið af steinolíu, þá geti það dregið úr stjórninni að fara að útvega meira.

Mjer finst það ekki nema eðlilegur hlutur, að ef stjórnin vissi, að t. d. steinolíufjelagið væri búið að fá leyfi til að flytja inn 4000 tunnur af steinolíu, þá myndi það draga úr henni að fara að panta. En ef stjórnin veit ekkert um aðra pantendur, nje þeir um hana, þá eru mestar líkur til, að enginn dragi sig í hlje, og það er það, sem oss ríður á, að reynt sje að fá vöruna, og það sem mest, því að engin hætta er á því, að það komi ofmikið af henni. Enn fremur gæti það hugsast, að þeir menn væru til, sem vildu heldur losna alveg við þessa verslun, ef þeir þyrftu að fá sjerstakt leyfi annarsstaðar til að hafa hana. Og hvað það atriði snertir, sem háttv. þm. (B. Sv.) tók fram, að hægra mundi að koma á einkasölunni, ef hans brtt. verður samþykt, því að þá væri loku skotið fyrir, að miklar birgðir gætu verið hjer á landi, þegar að því kæmi, að landssjóður tæki að sjer söluna, er því að svara, að eftir tillögum okkar nefndarmanna er mjög vel sjeð fyrir þessu atriði, hvernig fara skuli um væntanlegar steinolíubirgðir. Og setjum svo, að fjelagið eða einstakir menn finni upp á því að búa til t. d. olíugeyma eða slík dýr mannvirki, vitandi um lög þessi og það, að við borð lægi, að landssjóður tæki að sjer þessa verslun. Jeg get ekki sjeð, að neinn geti krafið landssjóð skaðabóta fyrir, að slík mannvirki yrðu verðlaus eða verðlítil, því að enginn getur fengið bættan skaða, sem hann er sjálfur valdur að og fyrirsjáanlegur er, en slíkur skaði væri fyrirsjáanlegur öllum, undir þessum kringumstæðum.

Hvað það snertir að leyfa einstökum mönnum að panta, þá held jeg, að það yrði einmitt til þess, að stjórnin tæki síður að sjer verslunina, því að þegar það lag er komið á, að þessi fái undanþágu, og svo hinn, þá myndi það vera látið ganga svo, heldur en að taka fyrir þessar pantanir, og það er síður en svo vissa fyrir því, þótt einhver panti olíu, að hún komi til landsins.

Í sambandi við þessa brtt. stendur síðasta brtt. um það, hvenær lögin eigi að ganga í gildi. Um hana er það að segja, að verði 1. brtt. samþykt, þá er hún um leið samþykt.

Þá er önnur breytingartillagan, um að færa niður eða sleppa alveg gjaldinu til landssjóðs. Hv. flm. (B. Sv.) hefir víst haft það á tilfinningunni, að hún myndi ekki hafa mikinn byr, því að hann hefir komið með varatillögu um að færa gjaldið úr 4 kr. niður í 2 kr., og jeg verð að lýsa yfir því, fyrir nefndarinnar hönd, að hún er eindregið á móti báðum þessum tillögum, því að það er eins og háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) tók fram, að það, sem rjettlætir einkasölu landssjóðs á hvaða vörum sem er, er það, að landssjóður geti haft tekjur af henni, og sje þessu grundvallaratriði kipt burt eða tekjurnar gerðar mjög óverulegar, vil jeg heldur, að frv. sje hreint og beint felt.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að engin vissa væri fyrir því, að þeir, sem nota mesta steinolíu, græði mest eða sjeu færastir um að greiða skatt af útveg sínum. Þetta er nú að vísu satt, en þó verðum vjer að ganga út frá, að aðalreglan sje sú, að sá, sem leggur meira í útveg sinn, beri meira úr býtum en sá, er lítið leggur fram, og eftir aðalreglunum verður löggjöfin að laga sig, en eigi eftir undantekningum. Þetta gjald í landssjóð mundi og ekki verða tilfinnanlegt almenningi, því að olían mundi varla verða dýrari, að meðtöldu gjaldinu til landssjóðs, en hún hefir verið, að meðtaldri álagningu, sem talið er víst að hafi verið þá.